Enski boltinn

Guardiola alveg skítsama um söguna á milli hans og dómara úrslitaleiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola reynir hér að ræða málin við spænska dómarann Mateu Lahoz sá hinn sama og mun dæma úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár.
Pep Guardiola reynir hér að ræða málin við spænska dómarann Mateu Lahoz sá hinn sama og mun dæma úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár. Getty/Stu Forster

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist hafa engar áhyggjur af þvi að Mateu Lahoz dæmi úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Pep var spurður af því að hann og dómarinn eiga sér sögu.

Spænski dómarinn dæmdi auðvitað oft hjá Pep í spænsku deildinni en það stóra málið er leikur sem Mateu Lahoz dæmi hjá Manchester City í Meistaradeildinni vorið 2018.

Guardiola gagnrýndi Lahoz dómara harðlega eftir leik Manchester City og Liverpool í Meistaradeildinni 2018 þegar Liverpool sló City út.

Guardiola sagði þá um Lahoz að þessi dómari væri hrifinn af því „að vera öðruvísi og vera sérstakur“ en spænski stjórinn var mjög ósáttur með að umræddur Mateu Lahoz dæmdi af mark sem Leroy Sane skoraði í leiknum.

Nú er búið að setja Mateu Lahoz á úrslitaleik Manchester City og Chelsea í Porto í Portúgal á laugardaginn kemur.

„Ég hef ekki hugsað um það í eina sekúndur. Mér gæti ekki verið meira sama. Ég hef svo mikla trú á mínu liði. Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu mikla trú ég hef á liðinu og hvað við getum gert í leiknum,“ sagði Guardiola.

Chelsea hefur unnið Manchester City tvisvar sinnum síðan að Thomas Tuchel tók við Lundúnaliðinu af Frank Lampard, einn í deildinni og inn í undanúrslitum enska bikarsins.

Guardiola er ekki sammála því að Chelsea hafi vegna þess eitthvað sálfræðilegt tak á City mönnum fyrir úrslitaleikinn um næstu helgi.

„Chelsea býr til vandamál fyrir öll lið. Það er hægt að óska þeim til hamingju með sigurleikina tvo á móti okkur en þetta er allt önnur keppni og líka úrslitaleikur. Við sjáum til hvað gerist,“ sagði Guardiola.

„Við mætum þeim vitandi hvað við þurfum að gera til að vinna þá. Ég hef meiri áhyggjur af því hvað við ætlum að gera með boltann og hvað við ætlum að gera þegar við erum ekki með boltann. Við munum einbeita okkur að því síðustu dagana fyrir úrslitaleikinn,“ sagði Guardiola.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.