Erlent

Leita enn að hættulegum hermanni í Belgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermaðurinn Jurgen Conings hefur hótað Marc Van Ranst, veirufræðingi sem leitt hefur viðbrögð yfirvalda í Belgíu við Covid-19. Van Ranst og fjölskylda hans hafa verið flutt á öruggan stað.
Hermaðurinn Jurgen Conings hefur hótað Marc Van Ranst, veirufræðingi sem leitt hefur viðbrögð yfirvalda í Belgíu við Covid-19. Van Ranst og fjölskylda hans hafa verið flutt á öruggan stað. Lögreglan í Belgíu og EPA

Lögregluþjónar og hermenn í Belgíu leita enn að hermanninum Jurgen Conings sem hvarf á mánudaginn, eftir að hafa stolið miklu af vopnum á herstöð. Hvarf Conings og vopnastuldur hans uppgötvaðist þó ekki fyrr en á þriðjudaginn en hermaðurinn er sagður vera í felum í stórum skógi í Hoge Kempen þjóðgarðinum.

Blaðamenn segjast hafa heyrt skotum hleypt af í skóginum í dag en lögreglan hefur varist allra fegna.

Conings hafði skilið bíl sinn eftir nærri skóginum. Í bílnum hafði hann komið fyrir handsprengju sem hann hafði tengt við hurðar bílsins, svo ef þær yrðu opnaðar myndi handsprengjan springa.

Í bílnum fannst líka mikið magn vopna.

Het Nieuwsblad segir lögregluna vera með gífurlegan viðbúnað í þjóðgarðinum og annarsstaðar í Belgíu, þar sem Conings skildi eftir tvö bréf til kærustu sinnar þar sem hann er sagður hafa hótað Marc Van Ranst, veirufræðingi sem hefur leitt viðbrögð yfirvalda í Belgíu við faraldri nýju kórónuveirunnar, og gefið í skyn að hann gæti gert árás á önnur skotmörk sín.

Sjá einnig: Leit­a her­manns sem stal vopn­um og hef­ur hót­að for­svars­mann­i sótt­varn­a í Belg­í­u

Van Ranst hefur verið fluttur í öruggt skjól, ásamt fjölskyldu sinni.

Conings er 46 ára gamall og hefur verið í belgíska hernum frá 1992. Hann hefur viðamikla reynslu en hefur undanfarið ítrekað verið ávíttur fyrir rasisma og ofbeldisfulla hegðun.

Belgískir þingmenn hafa í dag lýst yfir furðu sinni á því að hermaður sem hafi mögulega verið undir eftirlit vegna hegðunar sinnar hafi getað keyrt úr herstöð í bíl hlöðnum vopnum.

Varnarmálaráðherra Belgíu hét því í dag að gripið yrði til aðgerða gegn öfgamönnum í her Belgíu. Vitað sé um um þrjátíu hermenn sem taldir séu vera hægri sinnaðir öfgamenn.

Þjóðgarðurinn þar sem Conings er talinn í felum liggur nærri Hollandi og þeim megin við landamærunum eru yfirvöld einnig með mikinn viðbúnað, því óttast er að hann geti flúið þangað. Sérsveitir lögreglunnar í Hollandi eru meðal annars sagðar vakta landamærin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×