Erlent

Saksóknarar í New York taka höndum saman gegn fyrirtæki Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal annars beinist rannsóknin í New York að mögulegum skatt- og bankasvikum Donalds Trump, fyrrverandi forseta.
Meðal annars beinist rannsóknin í New York að mögulegum skatt- og bankasvikum Donalds Trump, fyrrverandi forseta. EPA/MICHAEL REYNOLDS

Rannsókn saksóknara í New York á fyrirtæki Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, er nú orðin glæparannsókn. Þeir vinna nú með ríkissaksóknunum í Manhattan en í meira en ár hafa bæði embætti unnið að mismunandi rannsóknum á viðskiptum forsetans fyrrverandi og hafa þær nú verið sameinaðar.

Rannsókn saksóknaranna í New York var ekki glæparannsókn fyrr en nú fyrir skömmu og voru skilaboð þess efnis send til fyrirtækis Trumps nú á dögunum, samkvæmt frétt CNN, sem sagði fyrst frá þessum vendingum.

Rannsókn ríkissaksóknara í Manhattan hefur meðal annars beinst að mögulegum fjársvikum fyrirtækis Trump, eins og skattsvik og bankasvik. Hún hefur sérstaklega beinst að því hvort fyrirtækið hafi dregið úr virði eigna þess til að greiða lægri skatta, og gert mikið úr virði eignanna til að fá betri lán.

New York Times segir að saksóknarar hafi varið miklu púðri í að fá Allen Weisselberg, fjármálastjóra fyrirtækisins til langs tíma, til samstarfs gegn Trump og fyrirtækinu Trump Org. Saksóknarar hafa meðal annars reynt að koma höndum yfir bankagögn hans og gögn frá einkaskólanum sem börn hans sækja í New York.

Fyrrverandi tengdadóttur Weisselberg hefur útvegað saksóknurum mikið af gögnum sem sögð eru snúa að því hvernig Trump á að hafa greitt starfsmönnum sínum með íbúðum og með því að greiða skólagjöld fyrir þá.

Saksóknarar hafa einnig komið höndum yfir skattaskýrslur Trumps, auk annarra fjármálagagna, sem hann barðist gegn því að þeir fengju.

Gögn sem fjölmiðlar vestanhafs hafa séð sýna að Trump hefur tapað gífurlega miklum peningum í gegnum árin. Fyrirtæki Trump, spilavíti, hótel og verslunarrými í íbúðarbyggingum, töpuðu tugum milljóna dollara árið 1985 fram til ársins 1994.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×