Erlent

Ísraelsstjórn mótmælt víða um heim

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Fjölmenn mótmæli voru víða gegn loftárásum Ísraela á Gasasvæðið í dag. Ekkert lát er á árásunum né eldflaugaskotum Hamas-samtakanna á ísraelskar borgir.

Fleiri en tvö hundruð hafa nú farist í árásunum. Fjöldi Palestínumanna kom saman á Vesturbakkanum í morgun til þess að mótmæla Ísraelsher. Mótmælendur köstuðu steinum að þungvopnuðum ísraelskum hermönnum sem skutu táragasi til baka.

Mun víðar er mótmælt en á Vesturbakkanum einum. Allt frá Argentínu til Indónesíu hefur fólk safnast saman og krafist aðgerða gegn Ísrael. Til dæmis hér á Íslandi, á meðan utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna funduðu í Hörpu.

Frá mótmælum í argentínsku höfuðborginni Buenos Aires.AP/Victor R. Caivano

Ákall leiðtoga heimsins um vopnahlé á svæðinu verður sífellt háværara. Hér á landi hefur á annan tug þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi fordæmi loftárásir Ísraela og skori á Ísraelsstjórn að flytja landtökufólk og herlið af hernumdum svæðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×