Leicester City bikar­meistari í fyrsta sinn í sögu fé­lagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markið sem tryggði Leicester fyrsta bikarmeistaratitil í sögu félagsins.
Markið sem tryggði Leicester fyrsta bikarmeistaratitil í sögu félagsins. Eddie Keogh/Getty Images

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað enda staðan markalaus að honum loknum. Ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og að mistök áttu ekki að vera orsök taps eða sigurs í dag.

Í síðari hálfleik mistókst uppspil Chelsea hins vegar þegar Ayoze Perez komst inn í sendingu úr vörn Chelsea. Þaðan fór boltinn á Luke Thomas sem fann Youri Tielemans sem rak boltann í átt að vítateig Chelsea áður en Belginn þrumaði tuðrunni í skeytin vinstra megin.

Óverjandi skot og staðan orðin 1-0 Leicester City í vil þegar 63 mínútur voru liðnar. Sóknir Chelsea voru frekar máttlitlar en Kasper Schmeichel þurfti tvívegis að taka á því í marki Leicester. Fyrst átti hann mjög góða vörslu sem sjá mér hér að neðan og svo á 86. mínútu gerði hann gott betur er boltinn féll fyrir Mason Mount í teignum.

Mount átti þrumuskot sem fór milli fóta varnarmanns Leicester og stefndi í hornið en sterk hendi Kasper Schmeichel náði einhvern veginn að blaka boltanum í horn. Ótrúleg markvarsla í alla staði og staðan enn 1-0 Leicester í vil.

Rétt áður en venjulegur leiktími var liðinn tókst Chelsea að koma boltanum í netið. Það gerði fyrrum Leicester-maðurinn Ben Chilwell eftir góða sókn sem endaði með því að leikmaður Leicester sparkaði í Chilwell og í netið.

Eftir að markið var skoðað kom í ljós að Chilwell var rangstæður er boltanum var spilað inn á hann og markið því dæmt af. Staðan enn 1-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Leicester City því bikarmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins þökk sé frábæru marki Youri Tielemans. Hér að neðan má sjá allt það helsta úr leik dagsins.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.