Ákvörðunin byggir á því að undanfarið hefur lítið rignt á þessu svæði og að lítil rigning sé í kortunum. Áður var búið að lýsa yfir óvissustigi en nú hefur það verið hækkað í hættustig.
Samhliða því hafa slökkviliðsstjórar á svæðinu ákveðið að banna meðferð opins elds. Þetta þýðir að opinn eldur er í raun bannaður frá Breiðafirði að Eyjafjöllum.
Í áðurnefndri tilkynningu segir að bann slökkviliðsstjóra við opnum eldi sé í samræmi við reglugerð nr. 325/2016. Þar er opinn eldur skilgreindur sem „allur eldur sem kveiktur er utandyra, þ.m.t. þegar kveikt er í bálkesti eða sinu“.
„Slökkviliðsstjóri getur stöðvað leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum,“ segir í tilkynningunni.
Bannið tekur gildi í dag og nær til sama svæðis og hættustigið. Það gildir þar til því verður aflétt og brot varða sektum.
Almenningur og sumarhúsaeigendur á svæðinu eru hvattir til að:
- Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
- Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
- Kanna flóttaleiðir við sumarhús
- Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
- Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
- Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
- Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er
Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda:
https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/
Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.