Innlent

Ekki út­lit fyrir mikla úr­komu suð­vestan­lands á næstunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill sinubruni varð í Heiðmörk á þriðjudagskvöld. Gróður er mjög þurr sunnan- og vestanlands og ekki er útlit fyrir rigningu að gagni næstu daga.
Mikill sinubruni varð í Heiðmörk á þriðjudagskvöld. Gróður er mjög þurr sunnan- og vestanlands og ekki er útlit fyrir rigningu að gagni næstu daga. Vísir/RAX

Litlum breytingum á veðri er spáð næstu daga með áframhaldandi norðlægum áttum. Áfram er varað við hættu á gróðureldum þar sem ekki er útlit fyrir mikla úrkomu á suðvestanverðu landinu í einhvern tíma.

Sterk hæð yfir Grænlandi hefur áfram sterk áhrif á veður yfir landinu, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Afar þurrt hefur verið í veðri, séstaklega á sunnan- og vestanverðu landinu undanfarið og er gróður víða skraufþurr. Úrkoma sem féll í gær og í nótt er sögð gufa fljótt upp eða hverfa í jarðveginn.

Búist er við keimlíku veðri áfram næstu daga en með dálitlum blæbrigðum á milli daga. Norðlægar áttir, él og svalt veður norðaustantil en bjartara og yfirleitt þurrt sunnan- og vestanlands.

Í dag er spáð norðaustanátt, víða fimm til tíu metrum á sekúndu. Léttskýjuðu um landið sunnan- og vestanvert en éljum norðaustantil. Veður á að vera svipað á morgun en það hvessir með allt að þrettán metrum á sekúndu við Suðausturströndina. Hiti verður á bilinu núll til þrjár gráður austan- og norðaustantil en þrjár til átta gráður að deginum á vestanverðu landinu. Spáð er næturfrosti um allt land.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.