Innlent

Óvissustig vegna gróðurelda frá Eyjafjöllum upp á Snæfellsnes

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sinubruninn í Heiðmörk er sá næststærsti undanfarin fimmtán ár.
Sinubruninn í Heiðmörk er sá næststærsti undanfarin fimmtán ár. Vísir/RAX

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.

Svæðið sem um er að ræða nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt þessu svæði undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opin eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

„Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.


Tengdar fréttir

Næststærsti gróðureldur á Íslandi í fimmtán ár

Gróðureldurinn í Heiðmörk í gær virðist hafa verið sá næststærsti á Íslandi frá brunanum mikla á Mýrum í Borgarfirði fyrir fimmtán árum. Fyrstu fjórir mánuðir ársins voru þeir þurrustu í Reykjavík í meira en aldarfjórðung.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×