Umfjöllun og viðtöl: Leiknir - Breiðablik 3-3 | Jason Daði bjargaði stigi fyrir Blika

Sindri Sverrisson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Blika.
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Blika. vísir/vilhelm

Breiðablik rétt slapp með 3-3 jafntefli úr Breiðholti eftir leik sinn við Leikni í 2. umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

Blikar geta þakkað Pizzabæjarsyninum Jasoni Daða Svanþórssyni það að þeir skuli ekki enn vera stigalausir eftir fyrstu tvær umferðir deildarinnar, eftir að hafa verið spáð Íslandsmeistaratitlinum.

Jason Daði, sem kom frá Aftureldingu í vetur, hefur strax fengið stórt hlutverk í Kópavogi og var langlíflegastur í sóknarleik Blika. Á síðustu tuttugu mínútum leiksins skoraði hann tvö mörk og náði að tryggja Breiðabliki jafntefli en sjá til þess um leið að allir gengu svekktir af velli í Breiðholti í kvöld.

Stórkostleg skemmtun

Leikurinn var stórkostleg skemmtun og ljóst að leikmenn vildu svara fyrir sig eftir að hvorugu liðinu hafði tekist að skora í fyrstu umferð. Frá fyrstu mínútu sköpuðu þau sér hættulegar stöður og færi, og voru Leiknismenn nær því að skora á fyrstu mínútunum.

Sævar Atli Magnússon, sem var í þeirri stórfurðulegu stöðu að vera að spila á móti liðinu sem hann mun leika með á næstu leiktíð, var sérstaklega aðgangsharður.

Það hlýtur að vera óþægilegt að geta með góðri frammistöðu haft áhrif á það hvort verðandi liðið manns, og þar með maður sjálfur, spili til dæmis í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Það virtist þó ekki trufla Sævar Atla vitund enda ætlar hann að gera allt í sínu valdi til að halda sínu uppeldisfélagi í efstu deild.

Blikar náðu hins vegar betri tökum á leiknum þegar á leið fyrri hálfleik en þurftu alltaf að hafa áhyggjur af snörpum sóknum Leiknis.

Thomas Mikkelsen kom Breiðabliki yfir eftir hornspyrnu um miðjan fyrri hálfleik og Blikar virtust frekar líklegir til að bæta við marki út hálfleikinn, eða þar til að Máni Austmann Hilmarsson, nýmættur úr námi í Bandaríkjunum, smellti boltanum glæsilega í þverslá og inn. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Leiknismenn hófu svo seinni hálfleik af krafti og Emil Berger, upp á sitt einsdæmi, kom þeim í 2-1 eftir slæm mistök Finns Orra. Sævar Atli bætti svo við þriðja marki þeirra úr víti, sem reyndar virtist strangur eða rangur dómur.

Á síðustu tuttugu mínútum leiksins sýndu Blikar þá ákefð sem þá hafði skort, sóttu nánast án afláts en sköpuðu þó ekki mörg færi. Nógu mörg þó til að sækja sér stig.

Af hverju varð jafntefli?

Mikil baráttugleði og fórnfýsi Leiknismanna, í bland við hæfileika og gæði sóknarmanna liðsins, var nálægt því að duga til sigurs. Þó að Blikar hafi verið mun meira með boltann virtust Sævar Atli, Máni, Daníel og Emil alltaf geta skapað hættu. Blikar þurftu að fá á sig þrjú mörk til að fara almennilega í gang og það var of seint til að ná í sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er auðvelt að benda á Jason Daða í liði Blika. Mörkin tvö komu alls ekki úr auðveldum færum en auk þess var hann mjög áræðinn, fljótur og viljugur til að búa eitthvað til á meðan að reynslumiklir samherjar hans drógu sig nánast inn í skel. Árni Vilhjálmsson lífgaði þó einnig mikið upp á leik liðsins.

Hinn sænski Emil Berger fær stórt prik fyrir hið þýðingarmikla annað mark Leiknis sem hann sá algjörlega um að skora sjálfur. Hann átti frábæran leik á miðjunni, sem og Máni á vinstri kantinum sem skapaði oft hættu. Brynjar Hlöðversson skallaði boltann ótal sinnum í burtu og fór fyrir sínum mönnum í baráttunni en vörnin brást þó á ögurstundu í lokin.

Hvað gekk illa?

Finnur Orri lék aftast á miðjunni hjá Breiðabliki og gerði afskaplega lítið fyrir spil liðsins fram á við, auk þess sem hann missti boltann afar klaufalega frá sér þegar Emil skoraði. Kristinn Steindórsson sást varla í leiknum og Höskuldur Gunnlaugsson á einnig mikið inni.

Hvað gerist næst?

Leiknismenn eru á leið til Akureyrar í leik við heita KA-menn og Breiðablik freistar þess að landa sínum fyrsta sigri gegn Keflavík á Kópavogsvelli á fimmtudag.

Máni: Eitt stig á móti Breiðabliki er svo sem fínt

„Það er mjög gaman að vera mættur,“ sagði Máni Austmann Hilmarsson eftir sinn fyrsta leik í sumar. Hann spilaði í vetur í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum en lenti, bólusettur, á Íslandi á þriðjudaginn.

„Að spila fótbolta er það skemmtilegasta sem ég geri og það er bara geggjað að mæta á þriðjudegi og vera farinn að spila á laugardegi. Ég er búinn að vera að spila síðan í janúar í bandaríska háskólaboltanum þannig að ég fékk fínt „undirbúningstímabil“ þar, þannig séð,“ sagði Máni.

„Mér fannst þetta fínn leikur. Við bökkuðum aðeins niður og leyfðum þeim að vera með boltann, en keyrðum á þá þegar við náðum boltanum. Mér fannst þetta virka mjög vel. Við skoruðum þrjú og fengum örugglega 4-5 önnur færi til að skora. Það er svekkjandi að hafa misst þetta niður,“ sagði Máni sem hafði verið skipt af velli þegar Blikar náðu að jafna metin:

„Það var mjög leiðinlegt en þetta er fótbolti og það getur allt gerst. Fyrir leikinn hefði verið fínt að taka eitt stig en auðvitað langaði mann í þrjú stig eins og þetta þróaðist. En eitt stig á móti Breiðabliki er svo sem alveg fínt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira