Erlent

Fimm handteknir fyrir að selja „endurunna“ sýnatökupinna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þvegnu pinnarnir eru taldir hafa verið notaðir á um níu þúsund farþega.
Þvegnu pinnarnir eru taldir hafa verið notaðir á um níu þúsund farþega. epa/Diego Azubel

Lögregluyfirvöld á Indónesíu hafa handtekið nokkra starfsmenn lyfjafyrirtækis, sem eru grunaðir um að hafa þvegið sýnatökupinna og selt. Lögregla telur svikin hafa átt sér stað frá því í desember.

Að sögn lögreglu er hugsanlegt að um níu þúsund farþegar sem á flugvelli í Medan hafi verið skimaðir vegna Covid-19 með „endurunnum“ sýnatökupinnum. Fyrirtækið Kimia Farma, sem er í eigu ríkisins, er sagt eiga yfir höfði sér málsókn vegna málsins.

Farþegar á Kualanamu-flugvellinum hafa þurft að sýna fram á neikvæða niðurstöðu í Covid-19 skimun áður en þeir fá að fara í loftið. Flugvallaryfirvöld hafa notast við hraðpróf frá Kimia Farma en upp komst um svikin eftir að farþgear kvörtuðu yfir fölskum jákvæðum niðurstöðum.

Lögregla brást við með því að senda lögregluþjón í skimun á vellinum, „dulbúinn“ sem farþega. Þegar hann greindist með Covid-19 var sýnatakan á vellinum stöðvuð og rannsókn leiddi síðar í ljós að þar hafði verið notaður „endurunninn“ sýnatökubúnaður.

Fimm starfsmenn Kimia Farma hafa verið handteknir og verða ákærðir fyrir brot á heilbrigðis- og neytendalögum. Lögregla rannsakar nú hvort ágóði af svindlinu var notaður til að fjármagna byggingu lúxushýsis eins starfsmannanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×