Erlent

Belgískur bóndi færði landamærin að Frakklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bóndinn er talinn hafa verið þreyttur á því að landamærasteinn frá 1819 væri fyrir dráttarvélinni hans. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Bóndinn er talinn hafa verið þreyttur á því að landamærasteinn frá 1819 væri fyrir dráttarvélinni hans. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Landamæri Belgíu og Frakklands sem voru mörkuð á fyrri hluta 19. aldar voru færð um rúmlega tvo metra nýlega. Belgískur bóndi sem var þreyttur á að steinn sem varðaði landamærin flæktist fyrir dráttarvélinni hans færði hann og stækkaði þannig heimaland sitt örlítið á kostnað Frakklands.

Söguáhugamaður sem var á vappi í skógi tók eftir því að landamærasteininn á mörkum Frakklands og Belgíu hefði verið færður um 2,29 metra, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Bóndinn reyndist hafa fært steininn inn í Frakkland.

Yfirvöld beggja vegna landamæranna sáu spaugilegu hliðin. David Lavaux, bæjarstjóri Erquelinnes í Belgíu, sagðist þannig ánægður með uppátækið þar sem bærinn hans væri nú stærri. „En bæjarstjórinn í Bousignies-sur-Roc var ekki sammála,“ sagði Lavaux um nágrannabæinn handan landamæranna.

„Við ættum að komast hjá nýju landamærastríði,“ sagði Aurélie Welonek, bæjarstjóri Bousignies-sur-Roc.

Belgísk yfirvöld ætla að biðja bóndann um að færa steininn aftur á sinn stað. Geri hann það ekki gæti hann átt yfir höfði sér ákæru og málið gæti þurft að fara fyrir sérstaka landamæranefnd hjá belgíska utanríkisráðuneytinu sem hefur ekki verið starfandi frá 1930.

Núverandi landamærin, fyrir breytinguna, urðu til með Kortrijk-sáttmálanum sem Frakkar og Hollendingar skrifuðu undir árið 1820, fimm árum eftir að her Napóleóns beið ósigur í orrustunni í Waterloo. Steinarnir sem marka landamærin eru sagðir frá 1819.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.