Erlent

Fjórir handteknir í tengslum við rannsókn á risastórum barnaníðshring

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hópurinn er sagður hafa verið starfræktur frá Þýskalandi.
Hópurinn er sagður hafa verið starfræktur frá Þýskalandi.

Þrír hafa verið handteknir í Þýskalandi og einn í Paragvæ í tengslum við rannsókn lögrelgu á einum stærsta barnaníðshring sem starfræktur hefur verið á netinu. Um er að ræða samfélag á djúpvefnum (e. dark net) sem ber heitið Boystown.

Skráðir notendur eru yfir 400 þúsund talsins.

Notendur eru sagðir deila barnaníðsefni sín á milli en BBC hefur eftir heimildarmanni að sumar myndanna sem hafa verið í umferð á Boystown sýni grófastu kynferðislegu misnotkun á ungum börnum sem hægt er að ímynda sér.

Það eru lögregluyfirvöld í Þýskalandi sem fara fyrir rannsókninni, í samstarfi við kollega sína í Hollandi, Svíþjóð, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada.

Samkvæmt Europol mun sú stofnun einnig fylgjast náið með rannsókninni og fleiri handtaka og björgunaraðgerða að vænta á næstunni.

Nokkrum spjallsíðum var lokað í tengslum við aðgerðirnar.

Þrír mannanna, tveir í Þýskalandi og sá í Paragvæ, eru grunaðir um að hafa rekið Boystown. Þeir eru á aldrinum 40 til 58 ára. Þá er fjórði maðurinn, 64 ára, sagður hafa verið einn virkasti meðlimur síðunnar. Hann er sagður hafa birt 3.500 færslur.

BBC greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.