Innlent

Segir út­litið gott en minnir á að veiran þarna enn

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Guðnason skilaði nýju minnisblaði um sóttvarnaaðgerðir innanlands til heilbrigðisráðherra um helgina. Núverandi reglugerð gildir til miðnættis á miðvikudag.
Þórólfur Guðnason skilaði nýju minnisblaði um sóttvarnaaðgerðir innanlands til heilbrigðisráðherra um helgina. Núverandi reglugerð gildir til miðnættis á miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir helgina hafa verið nokkuð góða varðandi fjölda smitaðra hér á landi. Enn eigi eftir að gera helgina betur upp, fínpússa og skoða betur þessar tölur. 

„Tölurnar voru samt mjög góðar eins og þær komu úr rannsóknarkerfunum okkar og yfir helgina var enginn sem greindist utan sóttkvíar. Við eigum eftir að skoða betur tölurnar frá í gær. Þær eru ekki alveg endanlegar, en þetta lítur bara vel út og það er gott að sjá.“

Þetta sagði Þórólfur í samtali við umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni í morgun.

Aðspurður um hvort að tekist hafi að ná utan um þessi hópsmit þá segir hann að eins og það líti út núna þá virðast ekki vera að koma upp ný smit.

„Veiran er samt ennþá þarna. Hún er ekkert farin. Ekkert horfin. Við vitum af því að meðgöngutíminn er svona langur, það er vika sem líður frá því að maður smitast og þar til að maður veikist. Það eru einhverjir sem eru með lítil sem engin einkenni þannig að þetta gæti sprottið upp aftur. En þetta er gott eins og er.“

Nýtt minnisblað komið til ráðherra

Þórólfur skilaði nýju minnisblaði um sóttvarnaaðgerðir innanlands til heilbrigðisráðherra um helgina. Núverandi reglugerð gildir til miðnættis á miðvikudag.

Hann segir að við séum á góðum stað núna og verið með lítið af smitum. „Við höfum gengið í gegnum, á undanförnum vikum, nokkrar hópsýkingar, hópsmit, sem maður vissi ekki alveg í hvaða áttina myndi fara. En þetta er, eins og staðan er núna, að fara niður. Við vitum, af reynslunni að fara út úr þriðju bylgjunni að þá fórum við mjög hægt. Það gekk mjög vel og ég held að við ættum að nýta okkur þá reynslu. Ég held að við ættum að fara mjög hægt.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.