Enski boltinn

Kane vill vinna titla: Á leið frá Tottenham?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kane í leik gegn, mögulega, komandi samherjum sínum í Man. City fyrr á leiktíðinni.
Kane í leik gegn, mögulega, komandi samherjum sínum í Man. City fyrr á leiktíðinni. Tottenham Hotspur FC/Getty

Harry Kane vill, eðlilega, vinna titla og segir að það sé ekki að gerast hjá Tottenham. Þessi ummæli gætu ýtt undir að hann vilji burt frá félaginu.

Enski landsliðsfyrirliðinn hefur verið orðaður reglulega burt og í sumar gæti það endanlega gerst vinni félagið sér ekki sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Í vikunni vann hinn 27 ára gamli Kane til verðlauna sem besti leikmaður síðasta árs í enska boltanum að mati London Football Award.

Það voru ekki bara gleðifréttir fyrir Kane í vikunni því hann og félagar hans í Tottenham töpuðu úrslitaleiknum gegn Man. City í enska deildarbikarnum um síðustu helgi.

„Þegar ég horfi til baka mun ég minnast þessara augnablika en markmiðið mitt núna er að vinna bikara með liðinu,“ sagði Kane.

„Þetta er frábært en ég vil vinna stærstu bikarana með liðinu. Það erum við einfaldlega ekki að gera og það er pirrandi en svona er þetta.“

Einhverjir vilja meina að þessi ummæli hafi ýtt undir það að Kane vilji burt frá Tottenham en Manchester City hefur verið nefnt sem næsti áfangastaður Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×