Innlent

„Verið að rekja þetta eins og hægt er”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

„Þetta getur sveiflast upp og niður en þetta sýnir okkur bara að við erum enn í þessum sporum að eltast við smit úti í samfélaginu sem greinast ekki fyrr en þau koma allt í einu upp á afmörkuðum stöðum. Það út af fyrir sig er áhyggjuefni og þess vegna þurfa allir að passa sig,” segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um smittölur dagsins. Sex greindust innanlands og voru allir utan sóttkvíar við greiningu.

„Það er verið að rekja þetta eins og hægt er og taka sýni í kringum þessa einstaklinga til að reyna að stoppa þetta af eins fljótt og mögulegt er,” segir hann en hópsmitið í Þorlákshöfn vegur þyngst í tölunum, þar sem fjórir einstaklingar af sama vinnustað greindust smitaðir af kórónuveirunni.

Aðspurður segir hann að áfram megi gera ráð fyrir að fleiri smitist í kjölfar hópsýkingarinnar á leikskólanum Jörfa. „Við erum heldur ekki farin að sjá fyrir endann á því. Það eru margir enn í sóttkví en margir sem fara að losna á næstu dögum eftir sýnatökur, og þá forum við að sjá hvernig staðan á smitunum er.”

Nýjar sóttvarnarreglur á landamærunum tóku gildi í dag en þær kveða meðal annars á að farþegar sem koma frá löndum þar sem nýgengi er yfir 700 á hverja hundrað þúsund íbúa þurfi að fara í sóttvarnarhús. Þá hefst stóra bólusetningavikan á morgun þegar hátt í 25 þúsund manns fá bólusetningu, meðal annars sóttvarnalæknir.

„Jú það passar, ég er að falla í minn aldursflokk,” segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×