Enski boltinn

Shearer og Henry fyrstir inn í höllina

Sindri Sverrisson skrifar
Alan Shearer og Thierry Henry í leik á Highbury árið 2002.
Alan Shearer og Thierry Henry í leik á Highbury árið 2002. Getty/Andy Zakeli

Tveir af allra bestu framherjum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eru þeir fyrstu sem valdir eru inn í nýja heiðurshöll deildarinnar.

Fyrstu meðlimirnir eru þeir Alan Shearer og Thierry Henry. Úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992 og til greina í heiðurshöllina í dag koma aðeins þeir sem lögðu skóna á hilluna fyrir 1. ágúst í fyrra.

Shearer á metið yfir flest mörk í úrvalsdeildinni en hann skoraði 260 mörk í 441 leik á 14 leiktíðum, fyrir Newcastle og Blackburn.

Þessi fimmtugi Englendingur varð Englandsmeistari með Blackburn árið 1995 áður en hann sneri ári síðar heim til Newcastle þar sem hann skoraði 148 mörk á 10 árum.

Shearer varð þrívegis markakóngur úrvalsdeildarinnar og er sá eini sem skorað hefur yfir 100 úrvalsdeildarmörk fyrir tvö félög.

Henry er sannkölluð goðsögn hjá Arsenal þar sem hann lék árin 1999-2007, og reyndar um skamma hríð í lok ferilsins árið 2012.

Þessi 43 ára Frakki skoraði 175 mörk í 258 leikjum í úrvalsdeildinni, sem gerir að meðaltali mark í 68% leikja.

Henry skoraði yfir 20 mörk fimm leiktíðir í röð á árunum 2001-2006 og er markahæstur í sögu Arsenal, þar sem hann varð tvívegis Englandsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×