Fótbolti

Napoli rúllaði yfir Lazio meðan Roma og Atalanta skildu jöfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dries Mertens og Lorenzo Insigne fagna einu af fimm mörkum Napoli í kvöld.
Dries Mertens og Lorenzo Insigne fagna einu af fimm mörkum Napoli í kvöld. EPA-EFE/CIRO FUSCO

Tveir stórleikir fóru fram í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Napoli rúllaði yfir Lazio, 5-2 á meðan Roma og Atalanta gerðu 1-1 jafntefli.

Það tók Napoli aðeins tólf mínútur að komast í 2-0. Lorenzo Insigne og Matteo Politano þar að verki. Þannig var staðan þangað til í síðari hálfleik. Þá bætti Insigne við þriðja marki heimamanna og Dries Mertens bætti því fjórða við á 65. mínútu.

Fimm mínútum síðar minnkaði Ciro Immobile muninn fyrir gestina. Sergej Milinkovic-Savic bætti við öðru marki Lazio á 74. mínútu og staðan því orðin 4-2. Victor Osimhen stöðvaði svo endurkomu gestanna þegar hann skoraði fimmta mark heimamanna, staðan orðin 5-2 og reyndust það lokatölur.

Hart var barist í leiknum en alls fóru átta gul spjöld á loft.

Í leik Roma og Atalanta fór einnig fjöldinn allur af spjöldum á loft. Ruslan Malinovsky kom gestunum í Atalanta yfir á 26. mínútu. Staðan 1-0 í hálfleik. Robin Gosens fékk tvö gul spjöld í síðari hálfleik og þar með rautt. Skömmu eftir það síðara jafnaði Bryan Cristante metin fyrir Roma.

Staðan 1-1 og reyndust það lokatölur. Heimamenn misstu einnig mann af velli en í uppbótartíma fékk brasilíski varnarmaðurinn Ibanez tvö gul spjöld og þar með rautt.

Atalanta er því komið upp fyrir Juventus í 3. sæti deildarinnar með 65 stig. Napoli er í 5. sætinu með 63 stig, Lazio í 6. sæti með 58 stig og Roma í 7. sæti með 55 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×