Innlent

Jansen líklega fyrir þá sem erfitt er að ná aftur í bólusetningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir hjá embætti landlæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir hjá embætti landlæknis. Vísir/Sigurjón

Notkun bóluefnis frá framleiðandanum Jansen hefur verið samþykkt hér á landi og má búast við að í næstu viku verði þeir fyrstu bólusettir með efninu frá bandaríska fyrirtækinu Johnson & Johnson.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir hjá embætti Landlæknis, segir 2.400 skammta hafa borist nú þegar og annar skammtur berist í næstu viku.

„Sem við komum vonandi fljótlega í notkun,“ segir Kamilla.

Ekki er búið að kortleggja hvað hópur fær Jansen-bóluefnið hér á landi.

„En líklegast verða það einstaklingar sem er erfiðara að ná til í næstu bólusetningu. Ef þeir eru með áhættuþætti en vinna til dæmis úti á sjó, þá er það kannski heppilegt bóluefni fyrir þá ef það verða margar vikur eða mánuðir í að þeir komi aftur til landsins. Svo eftir hendinni aðrir.“

Jansen bóluefnið er frábrugðið öðrum bóluefnum við kórónuveirunni að því leyti að það er aðeins gefið einu sinni. Bóluefni Pfizer, Moderna og AstraZeneca er gefið tvisvar.

Spurð hvort að heimilislausir muni falla í þann hóp sem erfitt er að ná til segir hún það eiga eftir að koma í ljós.

„Það er töluvert um aukaverkanir eftir þennan eina skammt þannig að við þurfum að passa að fólk hafi í einhver hús að vernda þá fyrstu dagana eftir bólusetningu ef þeir skyldu fá óþægindi. Við viljum ekki að allir fari á bráðamóttöku vegna flensueinkenna. Það þarf að huga vel að þessu og heilsugæslan ætlar að vinna að því með sveitarfélögunum hvernig er best að standa að þessu.“

Algengustu aukaverkanir Jansen-bóluefnisins eru flensueinkenni.

„Það er mjög álíka tíðni og AstraZeneca miðað við þau gögn sem eru komin út,“ segir Kamilla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.