Enski boltinn

Segir það ekki vera í­­þrótt ef það skiptir ekki máli hvort þú vinnir eða tapir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guardiola sagði sína skoðun á ofurdeildinni á blaðamannafundi í dag.
Guardiola sagði sína skoðun á ofurdeildinni á blaðamannafundi í dag. EPA-EFE/Tibor Illyes

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, hélt eldræðu varðandi ofurdeild Evrópu í knattspyrnu á blaðamannafundi nú rétt í þessu. Hann segir það ekki vera íþrótt ef engu máli skiptir hvort þú vinnir eða tapir. Ræðu Pep má sjá í fréttinni.

„Ég hef ekki allar upplýsingarnar, hef raunar ekki það miklar upplýsingar en ef þú spyrð mig af hverju þessi lið voru valin til að spila í þessari keppni þá get ég ekki svarað því þar sem ég veit ekki ástæðuna. Íþrótt, það er ekki íþrótt ef tengingin milli þess sem þú leggur á þig og þess sem þú uppskerð er ekki til. Það er einfaldlega ekki íþrótt,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi sínum og var augljóslega mikið niðri fyrir.

Hann hélt áfram.

„Það er ekki íþrótt ef árangurinn er þegar tryggður. Það er ekki íþrótt ef það skiptir engu máli hvort þú tapir. Þess vegna – eins og ég hef margoft sagt – vil ég að bestu keppnirnar séu eins sterkar og mögulegt er, enska úrvalsdeildin er dæmi um það. Það er ekki sanngjarnt þegar eitt lið berst og berst, kemst á toppinn en fær ekki þátttökurétt [í ofurdeild eða Meistaradeild] því það er búið að tryggja nokkrum liðum sæti þar.“

„Svona líður mér. Ég veit ekki hvað breytist og fólk segir að það verði fjögur eða fimm lið sem geti unnið sér inn þátttökurétt og þar með spilað í þessari keppni. En hvað gerist fyrir hin 14-15 liðin sem þurfa ekki að spila vel og fá samt alltaf að vera með [í ofurdeildinni]. Þetta er því ekki íþrótt, þetta er eitthvað annað,“ sagði Guardiola að endingu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.