Innlent

Segir af­glæpa­væðingu „gefa leyfi til að prófa“

Sylvía Hall skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir stórkostleg mistök að afglæpavæða neysluskammta og vonar að „menn nái áttum“ áður en það verði að veruleika. Frumvarp heilbrigðisráðherra um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta hugnast honum ekki.

Þetta kemur fram í grein sem Sigmundur birtir á heimasíðu sinni í dag. Þar segir hann málið vera úr flokki „nýaldarstjórnmála“ og stjórnvöld hafi tekið upp „orðskrípið afglæpavæðing“, sem að hans mati sé ein róttækasta lögleiðing fíkniefna sem fyrirfinnst.

„Frumvarp ríkisstjórnarinnar er upprunið hjá pírötum eins og heilbrigðisráðherra játar og píratarnir þreytast ekki á að minna á. Það er því svo komið að ríkisstjórn Vg, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur tekið að sér að innleiða stefnu sem píratar geta kynnt sem alheimsmet á næsta heimsþingi anarkista,“ skrifar Sigmundur.

Að hans mati eigi fíkniefni að vera ólögleg, því þannig séu skilaboðin að þau séu hættuleg. Ef refsingar yrðu afnumdar fyrir neysluskammta myndu ungmenni „ekki hika við að mæta með slík efni í samkvæmi“ en sjálfur hafi hann orðið var við slíkt í núverandi lagaumhverfi.

„Með lögleiðingu fíkniefna eru stjórnvöld í raun að gefa leyfi til að prófa. Í ótal samkvæmum á námsárunum og á ólíkum vinnustöðum varð ég aldrei var við eiturlyf. Eflaust voru þau stundum skammt undan en fólk var ekki að flíka þeim vegna þess að þau voru ólögleg.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.