Erlent

Drottningin sat ein næst altarinu við jarðarförina

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Elísabet Englandsdrottning sat ein fremst við altarið þegar eiginmaður hennar, Filippus prins hertogi af Edinborg, var jarðsunginn í dag. Hér má sá gamla mynd af þeim hjónum.
Elísabet Englandsdrottning sat ein fremst við altarið þegar eiginmaður hennar, Filippus prins hertogi af Edinborg, var jarðsunginn í dag. Hér má sá gamla mynd af þeim hjónum. EPA-EFE/THE COUNTESS OF WESSEX

Filippus prins, maki Elísabetar Bretadrottningar, var borinn til grafar í dag en athöfnin fór fram í kapellu St. Georgs við Windsorkastala. Fjöldi þeirra sem sóttu jarðarförina var takmarkaður við þrjátíu vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar.

Drottningin sat ein næst altarinu á meðan á guðsþjónustunni stóð. Vilhjálmur Bretaprins og bróðir hans Harry, sátu ekki hlið við hlið heldur á móti hver öðrum við athöfnina en yfirgáfu kapelluna þó hlið við hlið.

Skotið var úr fallbyssum við Lundúnaturninn og við Edinborgarkastala minningu Filippusar við upphaf athafnarinnar. Filippus prins hafði sjálfur valið tónlistina sem spiluð var við athöfnina en meðal annars voru flutt verk Benjamin Britten og William Lovelady.

Skotið úr fallbyssum við Lundúnaturninn. EPA-EFE/CPL ED WRIGHT/RAF/MOD/CROWN

Erkibiskupinn af Canterbury þakkaði hertoganum fyrir „trú sína og tryggð, fyrir tryggð gagnvart skyldum sínum og ráðvendni, fyrir lífstíð sína í þjónustu við þjóðina og breska samveldið og fyrir hugrekki og innblástur með forystu sinni.“

Á meðfylgjandi myndbandi frá Sky News má sjá hvar drottningin mætir til athafnarinnar í kapellunni. 

Hátíðlegasta stund dagsins, eins og því er lýst í frétt BBC, var þegar kista hertogans var látin síga niður í Konungshvelfinguna við undirleik herhljómsveitar. Kistan var svo prýdd blómum sem Elísabet Englandsdrottning, ekkja hertogans, valdi sjálf.

Filippus prins var 99 ára þegar hann lést.EPA-EFE/Dave Jenkins/MOD/CROWN

Kistunni fylgdu fjögur börn Filippusar og Elísabetar, þau Karl, Andrés, Játvarður og Anna en með þeim voru þeir Vilhjálmur og Harry, synir Karls. Þar á eftir koma aðrir eins og Pétur, sonur Önnu, og eiginmaður hennar, aðmírállinn Tim Laurence.

Nokkur fjöldi fólks var saman kominn til að fylgjast með athöfninni. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tók jafnframt þátt í einnar mínútu þögn fyrr í dag í minningu hertogans.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minnist hertogans einnig í færslu á Twitter í dag þar sem hann rifjar sérstaklega upp heimsókn Filippusar prins til Íslands árið 1964.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.