Erlent

Dæmdur fyrir að hafa „laumast til kyn­maka“

Sylvía Hall skrifar
Dómstóll í Árósum sýknaði manninn af ákæru fyrir nauðgun.
Dómstóll í Árósum sýknaði manninn af ákæru fyrir nauðgun. Getty

Ungur karlmaður í Árósum í Danmörku var sýknaður af ákæru fyrir nauðgun en dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa „laumast til kynmaka“ með jafnöldru sinni í sumarhúsi í Odder í janúar á þessu ári. Var talið að maðurinn hafði ekki haft ásetning til nauðgunar þegar brotið var framið.

Frá þessu er greint á vef TV2 þar sem vísað er í fréttatilkynningu lögreglunnar á Austur-Jótlandi. Maðurinn íhugar nú hvort hann eigi að áfrýja dómnum.

Maðurinn hafði verið í sumarbústaðarferð með þremur vinum sínum og tveimur konum á sama aldri þegar hann braut gegn konunni, en hún hafði eytt kvöldinu með vini hans á meðan hann var með vinkonu hennar. Síðar um kvöldið ræddu mennirnir um að „skipta um félaga“, sem konan neitaði að gera.

Þegar konurnar fóru út fyrir skiptu mennirnir um herbergi án þess að segja þeim frá því. Þegar konan kom til baka stunduðu þau kynlíf, en hún hélt hún væri enn með þeim manni sem hafði áður verið í herberginu. Þegar hún áttaði sig á aðstæðum hraðaði hún sér úr herberginu og hringdi í lögreglu.

Ákæruvaldið byggði málið á nýjum „samþykkislögum“ þar sem sú krafa er gerð að báðir aðilar séu samþykkir kynmökum. Ef svo er ekki telst það vera nauðgun í skilningi laga, en breytingarnar tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

„Brotaþoli hafði áður neitað að stunda kynlíf með manninum, en þrátt fyrir það skipti hann viljandi um herbergi við vin sinn án þess að láta vita af því. Hann gerði hvorki grein fyrir sér né gekk úr skugga um að hún væri samþykk kynmökunum,“ sagði saksóknarinn Jesper Rubow.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×