Erlent

Vilja rann­saka leka nektar­myndar af þing­manni

Sylvía Hall skrifar
Þingmaðurinn Will Amos hefur beðist afsökunar á atvikinu.
Þingmaðurinn Will Amos hefur beðist afsökunar á atvikinu. Facebook

Þingmenn á kanadíska þinginu hafa kallað eftir rannsókn á því hvernig mynd af lokuðum fundi fór í dreifingu. Umrædd mynd sýnir þingmanninn Will Amos nakinn, þar sem hann gleymdi að slökkva á vefmyndavél sinni þegar hann skipti um föt á meðan fundi stóð.

Í ljósi þess að fundurinn var lokaður þykir einsýnt að skjáskotið hafi verið tekið af öðrum þingmanni. Amos, sem baðst innilegrar afsökunar á atvikinu, segist skammast sín fyrir að hafa gleymt að slökkva á myndavélinni og að um heiðarleg mistök hafi verið að ræða.

„Ég gerði mjög óheppileg mistök í dag, og ég skammast mín augljóslega fyrir það. Það var óvart kveikt á myndavélinni á meðan ég skipti yfir í vinnuföt eftir skokk,“ skrifaði Amos á Twitter-síðu sína.

Fyrstu viðbrögð annarra þingmanna á fundinum voru á þann veg að minna á klæðaburðarreglur þingsins. „Það gæti verið nauðsynlegt að minna fundarmenn, sérstaklega karlkyns, á að bindi og jakki er skyldufatnaður en einnig bolur, nærbuxur og buxur,“ sagði Claude DeBellefeuille, meðlimur Bloc Québécois.

Eftir að myndin fór í dreifingu hafa margir velt upp spurningum varðandi birtingu slíkra mynda á netinu og hefur atvikið verið fordæmt. „Að deila nektarmyndum af fólki án þeirra samþykkis er ömurlegt undir öllum kringumstæðum. Það að þingmaður leki slíkri mynd til fjölmiðla er algjört brot á bæði manneskjunni á þeirri mynd en einnig, að ég held, reglum þingsins,“ skrifaði almannatengillinn Lisa Kirbie um atvikið.

Samkvæmt kanadískum hegningarlögum er ólöglegt að deila slíkum myndum ef það liggur fyrir að manneskjan á myndinni gaf ekki samþykki fyrir því. Þingmenn hafa því kallað eftir rannsókn á atvikinu, sem segja dreifinguna vera illkvittna og að hún muni hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir Amos.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×