Fótbolti

Telur Belling­ham of góðan miðað við aldur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jude Bellingham skoraði mark Dortmund í 2-1 tapi gegn Manchester City í gær.
Jude Bellingham skoraði mark Dortmund í 2-1 tapi gegn Manchester City í gær. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Pep Guardiola átti erfitt með að trúa því að Jude Bellingham, leikmaður Borussia Dortmund, sé aðeins 17 ára gamall, er hann ræddi við fjölmiðla eftir sigur Manchester City í gærkvöld.

Lærisveinar Pep í Man City slógu Dortmund út úr 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöld. City vann báða leiki einvígisins 2-1 og einvígið þar með 4-2. 

Bellingham skoraði hins vegar fyrsta mark leiksins í gær sem og það var mark dæmt af honum á Etihad-vellinum í Manchester í síðustu viku. Guardiola ræddi miðjumanninn unga eftir leik og sagði hann í raun of góðan miðað við aldur.

„Kannski er hann lygari. Hann er svo góður miðað við að vera aðeins 17 ára gamall, ég trúi því ekki,“ sagði Pep og hló.

„Hann er frábær leikmaður. Ég tók eftir því að þegar hann fékk ekki boltann frá varnarmönnum, hvernig hann kallaði á þá og hvernig hann heimtaði boltann – fyrir einhvern sem er aðeins 17 ára gamall þá skiptir það miklu máli.“

„Þjálfari Dortmund sagði við mig að það sem ég hefði séð í þessum tveimur leikjum væri það sem hann sér á hverri æfingu svo það er ljóst að þeir eru með mjög efnilegan leikmann í höndunum,“ sagði Pep að lokum.

Bellingham verður 18 ára í sumar en hann er á sínu fyrsta tímabili með Dortmund. Hann lék með Birmingam City í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð áður en þýska félagið festi kaup á honum.

City fór eins og áður sagði áfram og er loksins komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Mætir það Paris Saint-Germain í undanúrslitum.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×