Erlent

Bandalagsríki NATO kalla herinn heim frá Afganistan

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur.
Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur. EPA-EFE/IDA MARIE ODGAARD

Danir ætla að kalla herafla sinn heim frá Afganistan í skrefum fram til 11. september næstkomandi, samhliða því sem NATO og Bandaríkin hyggjast draga úr umsvifum sínum í landinu. Danir sendu fyrstu hermennina til Afganistan í janúar 2002 og hafa tekið þátt í stríðinu síðan. Guðlaugur Þór Þórðarson segir að nú hefjist nýr kafli í samskiptum NATO og Afganistan.

„Undirbúningur er að hefjast,“ sagði Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, í yfirlýsingu sem hann gaf í dönskum fjölmiðlum í kvöld. Að sögn Kofod er stefnt að því að herinn verði að öllu leyti farinn þann 11. september 2021 en það er sama dagsetning og Bandaríkjamenn hyggjast miða við. Þann dag verða einnig tuttugu ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana og á fleiri staði í Bandaríkjunum 11. september 2001.

„Að sjálfsögðu munum við ekki leyfa griðarstað fyrir hryðjuverkamenn sem gætu látið til skarar skríða. Hvort sem það er í Afganistan, Írak eða í Kalífadæminu [yfirráðasvæði íslamska ríkisins, ISIS]. Það er mikilvægt að við berjumst gegn hópum á borð við íslamska ríkið sem okkur stafar ógn af,“ sagði Kofod.

Alls hafa 43 danskir hermenn týnt lífi í stríðinu í Afganistan og 214 hafa særst frá því fyrstu hersveitir Dana komu til Afganistan í byrjun árs 2002.

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, segir að Danir muni draga mannskap sinn til baka í góðu samráði við bandalagsríki NATO. „Við vinnum þétt með bandamönnum okkar í NATO og bandarískum kollegum okkar í tengslum við að kalla herinn heim,“ segir Bramsen. „Það er ástæða til að þakka dönsku hermönnunum tólf þúsund dönsku hermönnum,“ bætti hún við og vísaði til þeirra sem gegnt hafa herþjónustu í Afganistan.

Danska utanríkisráðuneytið fullyrðir að danskar hersveitir hafi tekið þátt í að stuðla að auknum friði í Afganistan.

Nýr kafli

Líkt og áður segir hafa bandalagsríki NATO og Bandaríkin ákveðið að draga saman seglin í Afganistan. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifar að þessu tilefni færslu á Twitter nú í kvöld þar sem hann deilir áfram tísti frá Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.

„Nýr kafli í samskiptum NATO og Afganistan. Mikilvægt að standa vörð um og ná meiri árangri sem hefur náðst um öryggi, þróun og mannréttindi auk réttinda kvenna og stúlkna. Ísland mun halda áfram að styðja afgönsku þjóðina,“ skrifar Guðlaugur Þór.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×