Erlent

Gunnar Jóhann laus úr haldi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gunnar Jóhann Gunnarsson var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að hafa banað hálfbróður sínum í Mehamn í apríl 2019. Dómurinn var síðan mildaður í fimm ár og hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Gunnar Jóhann Gunnarsson var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að hafa banað hálfbróður sínum í Mehamn í apríl 2019. Dómurinn var síðan mildaður í fimm ár og hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Gunnari Jóhanni Gunnarssyni sem hefur í Noregi verið dæmdur fyrir morðið á hálfbróður sínum Gísla Þór Þórarinssyni, hefur verið sleppt úr haldi þar til niðurstaða liggur fyrir um hvort mál hans verður tekið fyrir í Hæstarétti.

Gísli Þór var myrtur í Mehamn í Noregi þann 27. apríl 2019 og hlaut Gunnar Jóhann í héraðsdómi þrettán ára fangelsisdóm fyrir morðið á bróður sínum. Dómnum var áfrýjað til áfrýjunardómstóls sem mildaði dóminn úr þrettán árum í fimm, þar sem 677 dagar í gæsluvarðhaldi kæmu til frádráttar. Þá áfrýjaði saksóknari í Noregi hinum áfrýjaða dómi yfir Gunnari Jóhanni til Hæstaréttar í byrjun mars á þessu ári.

Nú greinir norska blaðið iFinnmark frá því að verjandi Gunnars Jóhanns hafi farið fram á að honum yrði sleppt úr haldi þangað til málið verður tekið fyrir í Hæstarétti. Lögregla fór fram á að Gunnar Jóhann yrði áfram í gæsluvarðhaldi þar til málið færi fyrir Hæstarétt og var í fyrstu fallist á þá bón lögreglu í héraði. Þeim úrskurði var jafnframt áfrýjað og komst áfrýunardómstóll að annarri niðurstöðu þar sem tekið var undir kröfu verjanda Gunnars Jóhanns.

„Saksóknari hlítir þeim úrskurði og lætur manninn lausan úr haldi í dag. Að öðru leyti tjáum við okkur ekki frekar,“ segir í fréttatilkynningu sem Anja Mikkelsen Indbjør, sendi frá sér fyrir hönd lögreglu síðdegis í dag og vitnað er til í frétt nordlys.no.

Bjørn Andre Gulstad, lögmaður Gunnars Jóhanns, hefur áður vakið máls á því að skjólstæðingur hans hafi nú setið í gæsluvarðhaldi í tæp tvö ár.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×