Erlent

Fyrstu þyrlu­flug­ferðinni seinkar vegna hug­búnaðar­upp­færslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfsmynd sem Perseverance tók af sér og Ingenuity á Mars 6. apríl 2021.
Sjálfsmynd sem Perseverance tók af sér og Ingenuity á Mars 6. apríl 2021. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Ný dagsetning fyrir fyrstu flugferð þyrilvængjunnar Ingenuity á reikistjörnunni Mars verður ákveðin í næstu viku ef allt gengur að óskum. Ferðinni var frestað eftir að hnökrar komu fram við undirbúning fyrir helgi og þurfa verkfræðingar að uppfæra flugstjórnarhugbúnað vængjunnar.

Upphaflega var áætlað að Ingenuity gæti flogið í fyrsta lagi á sunnudag. Eftir að villa kom upp við prófun á þyrli hennar á föstudag var ákveðið að fresta því fram til dagsins í dag í fyrsta lagi.

Í tilkynningu á vefsíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA kemur fram að ýmsar mögulegar lausnir hafi verið prófaðar um helgina. Sú sem lofar bestu var að breyta og setja aftur upp flugstjórnarhugbúnað þyrilvængjunnar. Nú er unnið að því að fara yfir uppfærsluna og sannprófa hana.

Tímafrekt er að sannprófa hugbúnaðinn og hlaða honum upp til Ingenuity á Mars. Þegar því ferli hefur verið lokið á undirbúningur fyrir fyrstu flugferðina að hefjast á ný.

„Besta mat okkar á dagsetningu fyrir flugferð er fljótandi þessa stundina en við vinnum að því að ná þessum áföngum og setjum dagsetningu fyrir flugferð í næstu viku,“ segir í tilkynningu NASA.

Ingenuity er lítil þyrilvængja sem vegur innan við tvö kíló. Hún var farþegi undir kviðnum á könnunarjeppanum Perseverance sem lenti á Mars í febrúar. Eini tilgangur hennar er að prófa flug á öðrum hnetti og eru engin vísindatæki um borð. NASA segir að vængjunni heilsist vel. Afl, samskiptakerfi og hitastjórnun er stöðug.


Tengdar fréttir

Fresta fyrsta þyrlufluginu á Mars

Ákveðið hefur verið að fresta fyrstu tilraunaflugferð þyrilvængjunnar Ingenuity á reikistjörnunni Mars. Til stóða að fljúga henni í fyrsta lagi í dag en eftir að hnökrar komu í ljós við undirbúning á föstudag var ákveðið að seinka því.

Búa sig undir fyrsta þyrluflugið á öðrum hnetti

Undirbúningur fyrir fyrsta flug þyrilvængjunnar Ingenuity á Mars er nú í fullum gangi. Flygildið var losað undan könnunarjeppanum Perseverance um helgina og stefnt er að fyrstu flugferðinni á sunnudag. Það verður fyrsta farartæki manna sem flýgur á annarri reikistjörnu undir eigin afli.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.