Innlent

Fluttur af sótt­kvíar­hótelinu á sjúkra­hús

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tveir sjúkrabílar voru sendir að sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún.
Tveir sjúkrabílar voru sendir að sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún. Vísir/Sigurjón

Flytja þurfti gest á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún með sjúkrabíl til skoðunar á sjúkrahúsi nú í kvöld. Ekki liggur fyrir hvort veikindin voru af völdum Covid-19 eða ekki.

Þetta staðfestir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnarhúsa Rauða krossins, í samtali við fréttastofu. Hann segir veikindin ekki hafa verið þess eðlis að viðkomandi hafi verið í lífshættu, en þó hafi það verið metið svo að kalla þyrfti til sjúkrabíl.

Gylfi Þór Þorsteinsson er forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.Stöð 2/Egill

„Við erum með ákveðið verklag þegar bráð veikindi koma upp. Alla jafna hefðum við fengið Læknavaktina til þess að líta á viðkomandi en þar sem veikindin voru það bráð og snögg þá fannst okkur rétt að viðkomandi færi á sjúkrahús til skoðunar,“ segir Gylfi. Hann hafði ekki upplýsingar um hvort um væri að ferðamann eða einstakling búsettan hér á landi.

Gylfi segir veikindin hafa borið þess merki að mögulega gæti verið um Covid-19 að ræða, þó það hafi ekki fengist staðfest. Viðkomandi er nú í skoðun á sjúkrahúsi.

„Það voru ekki heilbrigðisstarfsmenn sem voru að meta ástand viðkomandi, heldur starfsfólk okkar. Við vitum því á endanum ekki hvort þetta sé Covid-tengt eða ekki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×