Erlent

Sol­berg gert að greiða 300 þúsund króna sekt fyrir sótt­varna­brotin

Atli Ísleifsson skrifar
Fréttir bárust af því að 8. mars að Solberg hafi gerst brotleg við reglur þar sem hún settist til borðs með þrettán öðrum þegar hún hélt upp á sextugsafmæli sitt í lok febrúar.
Fréttir bárust af því að 8. mars að Solberg hafi gerst brotleg við reglur þar sem hún settist til borðs með þrettán öðrum þegar hún hélt upp á sextugsafmæli sitt í lok febrúar. EPA

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur verið gert að greiða 20 þúsund norskra króna sekt, um 300 þúsund íslenskar, vegna sóttvarnabrota í skíðabænum Geilo í lok febrúar.

Þetta kom fram á fréttamannafundi norsku lögreglunnar klukkan átta í morgun þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknar lögreglunnar.

Fréttir bárust af því að 8. mars að Solberg hafi gerst brotleg við reglur þar sem hún settist til borðs með þrettán öðrum þegar hún hélt upp á sextugsafmæli sitt í lok febrúar. Forsætisráðherrann var stödd í Geilo ásamt fjölskyldu, tveimur systrum sínum og fjölskyldum þeirra.

Lögreglustjórinn Ole B. Sæverud sagði að þó að allir væru jafnir fyrir lögum þá væru ekki allir jafnir. Solberg gegni embætti forsætisráðherra og því mikilvægt að hún fari sannarlega eftir þeim reglum sem stjórnvöld hafi sett þjóðinni.„Við teljum því rétt að bregðast við með því að gefa út refsingu, til að tryggja að traust ríki áfram meðal almennings um sóttvarnareglurnar,“ sagði Sæverud.

Refsað fyrir kvöldverð sem hún komst ekki í

Til stóð að Solberg myndi setjast til borðs með þrettán öðrum á veitingastaðnum Hallingstuene í Geilo vegna afmælis síns á föstudeginum 26. febrúar, en þegar til kastanna kom missti Solberg af kvöldverðinum. 

Á laugardeginum hafi hún hins vegar sest til borðs með þessum þrettán í leiguíbúð, en samkvæmt gildandi sóttvarnareglum í Noregi mega að hámarki tíu manns koma saman.

Sæverud greindi jafnframt frá því að viðkennt sé að Sindre Finnes, eiginmaður Solberg, hafi gerst brotlegur við sóttvarnareglur með því að skipuleggja og sækja kvöldverðinn á föstudeginum, en að honum verði ekki gerð refsing. Sömu sögu sé að segja um veitingastaðinn sem um ræðir.

Hann segir að forsætisráðherrann fái sektina fyrir að hafa skipulagt kvöldverðinn á veitingahúsinu á föstudeginum, þeim sem hún missti þó sjálf af. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lög­regla hefur rann­sókn á sótt­varna­brotum Sol­bergs

Lögregla í Noregi hefur hafið rannsókn á sóttvarnabrotum norska forsætisráðherrans Ernu Solberg. Greint var frá því í gær að Solberg hafi gerst brotleg við reglur þar sem hún settist til borðs með þrettán öðrum þegar hún hélt upp á sextugsafmæli sitt í lok febrúar.

Erna Sol­berg braut sótt­varna­reglur í ferð með fjölskyldunni

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, braut sóttvarnareglur í febrúar þegar hún borðaði kvöldverð með þrettán öðrum. Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK en brotið átti sér stað á meðan Solberg var í fríi í skíðabænum Geilo þar sem hún hélt upp á sextugsafmæli sitt. Þar var hún stödd ásamt fjölskyldu, tveimur systrum sínum og fjölskyldum þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×