Erlent

Útlit fyrir hjarðónæmi í Bretlandi á mánudag

Sylvía Hall skrifar
Bólusetningar hafa gengið vel í Bretlandi og gera spár ráð fyrir því að hjarðónæmi verði náð á mánudag.
Bólusetningar hafa gengið vel í Bretlandi og gera spár ráð fyrir því að hjarðónæmi verði náð á mánudag. Getty

Allt bendir til þess að hjarðónæmi við kórónuveirunni náist í Bretlandi á mánudag. Spár gera nú ráð fyrir því að 73,4 prósent Breta verði komnir með mótefni við veirunni, annað hvort vegna fyrra smits eða bólusetningar.

Frá þessu er greint á vef Sky News þar sem vísað er í spálíkan University College London. Rúmlega 31 milljón hefur þegar verið bólusett í Bretlandi segja vísindamenn þetta stóran áfanga í baráttunni við veiruna.

Á mánudag verður ráðist í frekari tilslakanir, en þá munu flestar verslanir, líkamsræktarstöðvar og veitingastaðir opna á ný. Þrátt fyrir mögulegt hjarðónæmi hafa vísindamenn þó varað við því að stjórnvöld aflétti takmörkunum of bratt.

Meðal þeirra sem hafa varað við slíku er Dr. Catherine Smallwood, yfirmaður hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Að hennar mati er ekki útilokað að önnur bylgja gæti skollið á í landinu þrátt fyrir hjarðónæmi þar sem enn væri töluverður fjöldi smita að greinast á hverjum degi. 

Það eina sem hindraði frekari útbreiðslu þeirra væru þær hörðu samkomutakmarkanir sem hafa verið í gildi undanfarnar viku.

„Sá hópur samfélagsins sem hefur verið að halda uppi samfélagssmitinu er að stærstum hluta sá hópur sem hefur ekki enn verið bólusettur,“ er haft eftir Smallwood á vef Guardian. Vísar hún þar til yngra fólks sem á enn eftir að fá bóluefni, en bólusetningum er að mestu lokið hjá eldri aldurshópum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×