Erlent

Fimmtíu lögregluþjónar hafa særst á Norður-Írlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kveikt var í þessari bifreið við Shankill-veg í nótt.
Kveikt var í þessari bifreið við Shankill-veg í nótt. AP/Peter Morrison

Minnst fimmtíu lögregluþjónar hafa særst í átökum í róstum á Norður-Írlandi síðustu sex nætur. Kveikt var í strætisvagni í nótt.

Órói á Norður-Írlandi hefur aukist töluvert eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu en til að komast hjá tollaeftirliti á milli Norður-Írlands og Írlands þurftu Bretar að gangast við eftirliti á vöruflutningum milli Norður-Írlands og Bretlands. 

Þetta hefur vakið reiði norðurírskra sambandssinna. Óeirðirnar hafa verið einna mestar í Belfast, einkum við svokallaðan friðarvegg við Shankill-veg sem skilur að hverfi írskra þjóðernissinna og sambandssinna.

Óeirðirnar nú hófust eftir að norðurírska lögreglan neitaði að ákæra félaga í Sinn Fein flokknum sem voru viðstaddir útför fyrrverandi leiðtoga í írska lýðveldishernum síðasta sumar í trássi við sóttvarnareglur.

Sjá mátti bíla í ljósum logum og þungvopnaða lögreglumenn á götum norðurírskra borga í nótt.

Jonathan Roberts, aðstöðarlögreglustjóri norðurírsku lögreglunnar, sagði að rannsókn verði sett af stað vegna ofbeldis undanfarinna daga og kallaði það heppni að enginn lögregluþjónn hafi verið myrtur.

„Glæpir síðustu nátta hafa verið til háborinnar skammar og þá þarf að fordæma af mikilli hörku,“ sagði Roberts.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×