Fótbolti

Vonir Dort­mund um Meistara­deildar­sæti fara dvínandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dortmund tapaði á heimavelli í dag.
Dortmund tapaði á heimavelli í dag. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Það stefnir í að Borussia Dortmund verði ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Liðið tapaði 2-1 á heimavelli fyrir Eintracht Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Alls er fimm leikjum í deildinni nú lokið en stórleikur RB Leipzig og meistaranna í Bayern er síðar í dag. Dortmund hafði hins vegar tækifæri til að koma sér í Meistaradeildarsæti á kostnað Frankfurt er liðin mættust í dag.

Nico Schulz varð fyrir því óláni að skora sjálfmark á 11. mínútu og koma þannig gestunum í Frankfurt yfir. Miðvörðurinn Mats Hummels jafnaði metin fyrir Dortmund alveg undir lok fyrri hálfleiks og staðan 1-1 í hálfleik.

Stefan Ilsanker kom Frankfurt í 2-1 á 65. mínútu en markið var dæmt af. Andre Silva skoraði hins vegar löglegt mark sem stóð á 87. mínútu leiksins og tryggði Frankfurt dýrmætan 2-1 útisigur.

Frankfurt er nú í 4. sæti – síðasta Meistaradeildarsætinu – með 50 stig á meðan Dortmund er í 5. sæti með 43 stig.

Alfreð Finnbogason var meðal varamanna er Augsburg vann 2-1 sigur á Hoffenheim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×