Fótbolti

Raiola og Alf-Inge Håland í Barcelona að ræða fram­tíð Håland yngri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Håland hefur dregið Dortmund á herðum sér það sem af er leiktíð en gæti nú verið á förum til Barcelona.
Håland hefur dregið Dortmund á herðum sér það sem af er leiktíð en gæti nú verið á förum til Barcelona. Nico Vereecken/Getty

Norski framherjinn Erling Braut Håland gæti verið á leið til Barcelona ef marka má nýjustu fréttir. Umboðsmaður hans, Mino Raiola, sem og Alf Inge Håland, faðir hans, eru staddir í Barcelona er þetta er skrifað.

Það er blaðamaðurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni í dag. Hann segir að Raiola hafi flogið til Barcelona eftir að hafa fundað með Borussia Dortmund um framtíð leikmannsins. Håland er sem stendur leikmaður Dortmund en það virðist sem hann fari frá félaginu í sumar.

Joan Laporta var nýverið kosinn forseti Barcelona í annað skipti á ævinni. Hann vill ólmur fá Håland í raðir félagsins þó svo að allar fréttir bendi til þess að hirslur þess séu tómar.

Hinn tvítugi Håland hefur átt frábært tímabil með Dortmund sem keypti hann frá Red Bull Salzburg sumarið 2020. Hefur hann skorað 21 mark í 21 leik í þýsku úrvalsdeildinni ásamt því að leggja upp fimm mörk til viðbótar. Í Meistaradeild Evrópu hefur hann svo skorað tíu mörk í aðeins sex leikjum.

Raiola viðurkenndi í viðtali á dögunum að leikmaðurinn væri enn betri en hann hefði haldið og mögulega hefðu það verið mistök að selja hann fyrst til Dortmund þar sem framherjinn hefði þá þegar verið tilbúinn að spila fyrir stærstu félög heims.

Romano tekur fram að ekkert sé ákveðið er varðar framtíð Håland og Barcelona sé aðeins eitt af fjölmörgum félögum sem eru að fylgjast með gangi mála. Leikmaðurinn hefur verið orðaður við nær öll stórlið Evrópu og verður forvitnilegt að sjá hvar hann endar og hversu dýr hann verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×