Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að rætt hafi verið á vettvangi almannavarna hvort að taka bæri upp grímuskyldu í stað þess að gefa út tilmæli um sóttvarnir á gosstöðvunum í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin ennþá.
„Allavegana þannig að fólk noti grímur þegar það er nálægt öðru fólki,“ sagði hann um mögulega grímuskyldu.
Hátt í 24.000 manns hafa heimsótt gossvæðið undanfarna sjö daga samkvæmt teljara Ferðamálastofu. Rögnvaldur sagði að ekki hafi ennþá komið upp grunur um smit í Geldingadölum. Enginn sem er í sóttkví eða einangrun vegna kórónuveirunnar sé þar vegna tengingar við gosstöðvarnar.

Líklegasta smithættan á svæðinu taldi Rögnvaldur vera ef fólk stæði þétt saman og gætti ekki að fjarlægð. Töluvert hefur verið rætt um smithættu af reipum sem hefur verið komið upp í brekkum á gönguleiðinni. Rögnvaldur sagði almannavarnir hvetja fólk til að nota hanska og spritta hendur fyrir og eftir að það notar reipin.
„Margir hafa talað um að best væri að taka reipin í burtu en við vitum líka að reipin hefur forðað slysum þarna. Nóg er nú samt um slys. Það er töluvert um að það þurfi að aðstoða fólk sem er að detta eða misstíga sig og þess háttar,“ sagði Rögnvaldur.
Viðbúið er að umferð verði áfram mikil um gosstöðvarnar um páskana. Tekin hefur verið ákvörðun um að opna svæðið klukkan sex á morgnana og loka því aftur klukkan sex síðdegis. Rögnvaldur sagði að ef öngþveiti skapist á svæðinu líkt og gerðist í gær þegar bílastæði fylltust í bílaröð náði í gegnum Grindavík verði svæðinu lokað fyrr á daginn.