Sout­hampton kom til baka og vann Burnl­ey í stór­skemmti­legum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danny Ings skoraði glæsilegt mark í dag.
Danny Ings skoraði glæsilegt mark í dag. EPA-EFE/Dan Mullan

Chris Wood kom gestunum í Burnley yfir strax á 12. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum átti Ben Mee langa sendingu fram völlinn úr vörn Burnley.

Wood flikkaði boltanum áfram á Matej Vydra sem þrumaði á markið rétt fyrir utan vítateig og gestirnir komnir 2-0 yfir. Sean Dyche var þó ekki lengi í paradís en aðeins þremur mínútum síðar minnkaði Stuart Armstrong metin með góðu skoti eftir skemmtilega stoðsendingu Danny Ings.

Ings sjálfur jafnaði svo metin eftir frábæra tilþrif en eftir snarpa sókn þá plataði hann James Tarkowski upp úr skónum og lagði boltann svo undir Nick Pope í marki Burnley. Enski landsliðsmarkvörðurinn hefði eflaust átt að gera betur í markinu. Staðan orðin 2-2 og þannig var hún í hálfleik.

Heimamenn voru mun sterkari í síðari hálfleik og þegar klukkustund var liðin af leiknum voru þeir hársbreidd frá því að komast yfir. James Ward-Prowse átti þá þrumuskot í þverslánna og í kjölfarið átti Ings skot sem var bjargað á línu.

Þriðja markið kom svo skömmu síðar. Pope varði þá vel frá Ings – sem var allt í öllu gegn sínum gömlu félögum í dag – en Theo Walcott náði boltanum hægra megin við mark Burnley. Walcott lyfti boltanum á fjær þar sem Nathon Redmond tók hann í fyrsta og tuðran söng í netinu.

Staðan þar með orðin 3-2 í hreint út sagt frábærum leik. Burnley gerði hvað það gat til að jafna metin en allt kom fyrir ekki og raundar fékk Southampton besta færið þegar Che Adams slapp í gegn undir lok leiks en skaut framhjá. Jóhann Berg Guðmundsson var tekinn af velli í uppbótartíma.

Lokatölur 3-2 og Southampton því þremur stigum ríkari sem þýðir að það er nú með 36 stig í 13. sæti á meðan Burnley er með 33 í 15. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira