Innlent

Stjórn RÚV ætlar ekki að bregðast við erindi Samherja

Jakob Bjarnar skrifar
Þorsteinn Már forstjóri Samherja og þeir félagar í Kveik, Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson.
Þorsteinn Már forstjóri Samherja og þeir félagar í Kveik, Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson. Vísir/Vilhelm

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ætlar ekki að bregðast við erindi Samherja sem hefur krafist þess að Helgi Seljan fréttamaður fjalli ekki um Samherja.

Stjórn  Ríkisútvarpisins hefur svarað Samherja sem sendi erindi til stjórnar þar sem þess var krafist, í kjölfar dóms siðanefndar stofnunarinnar þess efnis að Helgi Seljan fréttamaður hafi brotið siðareglur með ummælum sínum á samfélagsmiðlum. Stjórnin lýsir því yfir að það sé ekki á þeirra verksviði að hlutast til um störf fréttamanna.

Vísað er til erindisins sem dagsett er 29. mars síðastliðins í kjölfar úrskurðar siðanefndar Ríkisútvarpsins frá því í síðustu viku. Erindið var sent stjórnarmönnum og rætt á fundi stjórnarinnar 30. mars 2021. 

„Málefni einstakra starfsmanna Ríkisútvarpsins er ekki til úrlausnar á borði stjórnar RÚV. Stjórnin hlutast ekki til um fréttaflutning eða aðra dagskrá RÚV, t.d. með því að leggja mat á hvaða starfsfólk sinni umfjöllun eða fréttaflutningi um tiltekin málefni. Þau verkefni eru í höndum hlutaðeigandi dagskrárstjóra, fréttastjóra sem og dagskrárgerðarfólks og fréttamanna og eru á ábyrgð útvarpsstjóra, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.“

Þá segir að yfirlýsing Ríkisútvarpsins, sem sett var inn á vef þess þegar niðurstaða siðanefndar lá fyrir, komi frá útvarpsstjóra og varafréttastjóra vegna atriða sem snúa að fréttastofunni. Og með hliðsjón að framangreindu muni stjórn RÚV ekki aðhafast frekar í kjölfar framangreinds erindis frá 29. mars. sl.

Undir þetta skrifar Jóhanna Hreiðarsdóttir formaður stjórnar og er afrit sent Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra.


Tengdar fréttir

Helgi Seljan þver­braut siða­­reglur Ríkis­út­­varpsins ohf

Siðanefnd Ríkisútvarpsins hefur dæmt í máli Samherja hf. gegn Helga Seljan og tíu öðrum starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Helgi er dæmdur sekur um brot gegn siðareglum stofnunarinnar en hin tíu sleppa hins vegar með skrekkinn. Brot Helga teljast alvarleg.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.