Erlent

Súesskurðurinn aftur opinn fyrir umferð

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattarmynd af Ever Given í Súesskurðinum eftir að því var komið á flot að hluta til í morgun.
Gervihnattarmynd af Ever Given í Súesskurðinum eftir að því var komið á flot að hluta til í morgun. AP/Planet Labs Inc.

Siglingar um Súesskurðinn í Egyptalandi hófust aftur með hefðbundnum hætti eftir að risavöxnu flutningaskipi sem hafði lokað skurðinum í hátt í viku var komið á flot í dag. Á fjórða hundrað skipa beið eftir að komast um skurðinn.

Stjórnendur skurðarins tilkynntu um að tekist hefði að losa flutningaskipið Ever Given og koma því á flot í dag. Umferð hefði nú aftur verið hleypt á skurðinn.

Björgunarlið með gröfur og dýpkunarpramma tókst að losa um Ever Given um helgina. Skipið er um fjögur hundruð metra langt og festist þvert yfir sunnanverðan skurðinn á þriðjudag. Öll umferð um Súesskurðurinn lokaðist á meðan en hann er ein fjölfarnasta flutningaleið í heimi.

Reuters-fréttastofan segir að í það minnsta 369 flutningaskip hafi beðið eftir því að komast um skurðinn í dag. Þau hefðu ella þurft að sigla alla leiðina suður fyrir Afríku til að komast á milli Evrópu og Asíu.

Dráttarbátar komu Ever Given á flot að hluta til fyrr í dag. Útgerð skipsins staðfesti síðdegis að það væri nú komið allt á flot. Skipið yrði fært og metið hvort það væri hæft til siglinga.


Tengdar fréttir

Hafa náð skipinu af strand­staðnum

Tekist hefur að ná gámaflutningaskipinu Ever Given á flot á ný að hluta. Skipið strandaði í Súesskurði síðastliðinn þriðjudag og þveraði skurðinn með þeim afleiðingum að nær öll umferð um skurðinn hefur stöðvast með tilheyrandi tjóni.

Kalla til fleiri dráttar­báta og vilja forðast að af­­ferma skipið

Búið er að kalla út tvo dráttarbáta til viðbótar við þá sem fyrir eru í Súes-skurðinum, til þess að reyna að losa hið 220 þúsund tonna flutningaskip Ever Given, sem situr nú fast og lokar skurðinum fyrir alla umferð. Svo kann að fara að afferma þurfi skipið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×