Erlent

Hafa náð skipinu af strand­staðnum

Atli Ísleifsson skrifar
Ever Given, sem er í eigu taívönsku útgerðarinnar Evergreen Marine, er yfir 400 metrar að lengd, um 200 þúsund tonn og með um 20 þúsund gáma um borð.
Ever Given, sem er í eigu taívönsku útgerðarinnar Evergreen Marine, er yfir 400 metrar að lengd, um 200 þúsund tonn og með um 20 þúsund gáma um borð. EPA

Tekist hefur að ná gámaflutningaskipinu Ever Given á flot á ný að hluta. Skipið strandaði í Súesskurði síðastliðinn þriðjudag og þveraði skurðinn með þeim afleiðingum að nær öll umferð um skurðinn hefur stöðvast með tilheyrandi tjóni.

BBC segir frá því að birst hafi myndskeið á samfélagsmiðlum í morgun þar sem sést að skutur skipsins hefur færst til þannig að opnast hefur nægilega mikið svæði fyrir önnur skip að sigla um skurðinn. Ekki er þó ljóst hvenær umferð skipa verður heimiluð um skurðinn á ný.

Talsmaður skipaþjónustufélagsins Inchcape hefur sömuleiðis greint frá því að tekist hafi að losa skipið af strandstaðnum. Notast hefur verið við gröfur og dráttarbáta síðustu daga til að losa skipið.

Ever Given, sem er í eigu taívönsku útgerðarinnar Evergreen Marine, er yfir 400 metrar að lengd, um 200 þúsund tonn og með um 20 þúsund gáma um borð.

Meðalverðmæti varnings sem fer að jafnaði í gegnum skurðinn er metið á um níu milljarða Bandaríkjadala á dag, eða yfir 1.100 milljarða króna.

Hundruð skipa hafa beðið þess að geta siglt um skurðinn og tóku fjöldi skipalína þá ákvörðun að sigla frekar lengri leiðina milli Asíu og Evrópu, það er fyrir suðurodda Afríku, vegna stöðunnar í Súesskurði. Sú leið lengir ferðalag skipa milli Asíu og Evrópu um eina til tvær vikur.

Súesskurðurinn er um 193 kílómetrar að lengd og tengir Miðjarðarhafið og Rauðahafið. Er um að ræða stystu siglingaleiðina milli Evrópu og Asíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×