Ísland á enn eftir að skora sitt fyrsta mark undir stjórn Arnars eftir 3-0 tap gegn Þýskalandi og 2-0 tap gegn Armeníu í dag.
Arnar var spurður að því fyrir landsleikina þrjá (sá þriðji er gegn Liechtenstein á miðvikudag) hvort það veldi ekki áhyggjum hve sárafá mörk framherjar íslenska hópsins hefðu skorað síðustu misseri. Hann kvaðst þá ekki hafa neinar áhyggjur en hefur hann áhyggjur nú?
„Þegar maður velur hóp er maður að horfa á allt verkefnið í heild sinni. Við erum með marga sóknarmenn í hópnum og ég held að þessi leikur í dag snúist ekki um hve margir sóknarmenn eru í hópnum hjá Íslandi. Hann snýst um að þetta var afar lokaður leikur í fyrri hálfleik, nánast engin færi. Við fáum besta færið þá eftir horn þegar Ari fékk frítt skot eftir horn. Þetta er leikur sem spilast þannig að fyrsta markið skiptir svo miklu máli,“ sagði Arnar.
Heppnin þarf að vera með okkur
„Ég hef engar áhyggjur af því að við getum ekki skorað mörk. Eftir að þeir komust yfir þá fengum við færi til að jafna. Heppnin þarf aðeins að vera með okkur, til að við fáum þetta „momentum“ með okkur. Það var bara erfitt í dag. Þetta var mjög lokaður leikur og jafn, og var alltaf að fara að falla öðru hvoru megin með fyrsta markinu, eða enda bara í 0-0 jafntefli,“ sagði Arnar.
Ekki verið að velja „á móti Viðari“
Arnar var einna helst gagnrýndur fyrir það fyrir landsleikina, að hafa ekki valið sóknarmanninn Viðar Örn Kjartansson í sinn fyrsta landsliðshóp. Aðspurður hvort hann sæi eftir því svaraði Arnar:
„Nei. Það er voðalega auðvelt að koma með svona eftir á. Við erum með mjög marga sóknarmenn í hópnum og getum einfaldlega ekki valið of marga. Fyrir þetta verkefni tók ég þá ákvörðun að velja þennan hóp. Það er alls ekki verið að velja á móti Viðari. Ég valdi þessa menn því ég taldi þá rétta fyrir þetta verkefni í mars. Þó að leikir tapist þá er það alls ekki þannig að valið á hópnum sé rangt.“