Erlent

Um tuttugu skip með búfénað innanborð komast ekki leiðar sinnar um Súes-skurðinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ever Given strandaði í skurðinum og hefur stöðvað alla skipaumferð um svæðið.
Ever Given strandaði í skurðinum og hefur stöðvað alla skipaumferð um svæðið. epa/Khaled Elfiqi

Að minnsta kosti 20 skip með búfénað innanborðs komast ekki leiðar sinnar vegna skipsins sem strandaði í Súes-skurðinum í Egyptalandi. Hið 220 þúsund tonna Ever Given lokar skurðinum, þannig að um 200 skip eru föst.

Guardian hefur eftir Georgios Hatzimanolis, talsmanni Marine Traffic, að bæði séu skip með búfenað að bíða eftir því að sigla inn skurðinn en þá séu einnig þrjú sem virðist vera föst í skurðinum.

Marine Traffic hefur borið kennsl á um ellefu skip sem bíða með búfénað innanborðs en talið er að þau séu alls um tuttugu talsins. Fimm skipanna eru að koma frá Spáni en níu lögðu frá Rúmeníu fyrr í mánuðinum, samkvæmt Animals International.

Velferð dýranna er ekki ógnað eins og stendur en ef það reynist nauðsynlegt að létta Ever Given með því að fækka gámunum sem eru innanborðs, gæti það tekið margar vikur. Það verður mögulega hægt að flytja fóður um borð í skipin frá nálægum höfnum en það kann sömuleiðis að verða vandasamt vegna skipafjöldans á svæðinu.

Þúsundum skepna hefur þegar verið slátrað á árinu vegna tafa á sjó. Tvö skip, Karim Allah og Elbeik, neyddust til dæmis til að verja mánuðum úti á sjó þar sem áfangastaðir þeirra neituðu að taka á móti dýrunum af ótta við að þau væru mögulega með blátungusýki.

Bæði skipin snéru aftur til Spánar, þar sem 850 nautgirpum af Karim Allah var slátrað fyrr í mars á meðan enn er unnið að því að aflífa skepnurnar á Elbeik.

Geirt Weidingar hjá Animals International segir hættu á að dýrin fái ekki nóg vatn og fæði, að þau hljóti meiðsl og að skítur safnist upp þannig að þau eigi erfitt með að liggja. Þá má áhöfnin ekki losa sig við dauðar skepnur með því að kasta þeim utanborðs í skurðinn.

Spænsk stjórnvöld segja að engin fleiri skip með búfénað fari frá landinu á meðan skurðurinn er lokaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.