Erlent

Gæti tekið fleiri vikur að losa skipið úr skurðinum

Kjartan Kjartansson skrifar
Dráttarbátar reyndu að koma Ever Given aftur á flot á háflóði í morgun.
Dráttarbátar reyndu að koma Ever Given aftur á flot á háflóði í morgun. AP/Stjórn Súesskurðarins

Ekki er útilokað að það gæti tekið einhverjar vikur að losa gámaflutningaskipið sem lokar nú umferð um Súesskurðinn í Egyptalandi. Eigandi skipsins hefur beðist afsökunar á að trufla vöruflutninga.

Gámaflutningaskipið Ever Given festi sig þvert í Súesskurðinum í hvassviðri og sandfoki á þriðjudag. Langar raðir 156 flutningaskipa sem flytja allt frá olíu til korns hefur myndast við hvorn enda skurðarins en enginn kemst fram hjá gámaflutningaskipinu sem er um 400 metra langt og 200.000 tonn.

Forstjóri Boskalis, hollenska björgunarfyrirtækisins sem vinnur að því að losa Ever Given, útilokar ekki að verkið gæti dregist í einhverjar vikur að losa skipið og koma því á flot. Mögulega þurfi að fjarlægja gáma til þess að létta það.

„Þetta er eins og risavaxinn hvalreki. Þetta eru gríðarleg þyngsli á sandinn. Við gætum þurft að vinna með sambland af því að létta það með því að fjarlægja gáma, olíu og vatn af skipinu, dráttarbáta og dýpkun,“ sagði Peter Berdowski, forstjóri Boskalis við hollenska sjónvarpsstöð.

Átta dráttarbátar reyna nú að losa flutningaskipið, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Dýpkunarskip vinna að því að hreinsa burt sand og leðju frá bógi skipsins sem situr fast í kanti skurðarins.

Ever Given er í eigu taívönsku útgerðarinnar Evergreen Marine. Shoei Kisen Kaisha, eigandi útgerðarinnar, segir að afar erfitt reynist að koma skipinu aftur á flot, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Við biðjumst einlæglega afsökunar á því að valda skipum í Súesskurði og þeirra sem ætla sér að fara um hann miklum áhyggjum,“ sagði hann í yfirlýsingu í dag.

Súesskurðurinn tengir Miðjarðarhafið og Rauðahafið er stysta siglingaleiðin á milli Evrópu og Asíu. Um hann fara um tólf prósent af öllum vöruflutningum í heiminum daglega. Þurfi flutningaskip að sigla fyrir Góðravonahöfða, syðsta odda Afríku, lengist leiðin til Evrópu um allt að tvær vikur.

Evergreen Marine gæti átt yfir höfði sér milljarða kröfur vegna tafa og kostnaðarauka fyrir aðrar skipaútgerðir.

Gervihnattarmynd sýnir flutningaskipið sitja fast þvert yfir suðurhluta Súesskurðarins fimmtudaginn 25. mars 2021.AP/Planet Labs Inc.

Tengdar fréttir

Öngþveiti í Súes-skurði

Súes-skurðurinn í Egyptalandi er nú lokaður fyrir skipaumferð, eftir að stórt flutningaskip strandaði í skurðinum í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.