Erlent

Fjara, sterkir vindar og stærð skips tor­velda vinnu í Súesskurði

Atli Ísleifsson skrifar
Skipið sem strandaði var á leið til Rotterdam í Hollandi og var að koma frá Kína þegar skipstjórinn missti stjórn á skipinu í skurðinum miðjum með þeim afleiðingum að það strandaði.
Skipið sem strandaði var á leið til Rotterdam í Hollandi og var að koma frá Kína þegar skipstjórinn missti stjórn á skipinu í skurðinum miðjum með þeim afleiðingum að það strandaði. AP

Lág sjávarstaða, sterkir vindar og gríðarleg stærð skips hefur torveldað vinnu við að losa gámaflutningaskipið Ever Given af strandstað í Súesskurðinum.

Hið 400 metra langa skip, sem strandaði á þriðjudag, þverar enn skurðinn og hefur stöðvað stærstan hluta umferðar skipa um skurðinn í bæði norður- og suðurátt.

Skipaþjónustufyrirtækið GAC segir að tilraunir dráttarbáta til að losa skipið muni halda áfram, en að sterkir vindar á strandstaðnum og stærð skipsins hafi gert mönnum erfitt fyrir. Í nótt hafi svo hin lága sjávarstaða torveldað vinnuna enn frekar.

Á meðan skipið er strand hafa tugir annarra flutningaskipa þurft að bíða átekta, áður en þeim verður siglt um hinn 193 kílómetra langa Súesskurð sem tengir Rauðahaf við Miðjarðarhaf og er því aðalæð skipaflutninga frá Asíu til Evrópu.

AP segir frá því að sérfræðingar telji að það muni líða um tveir sólarhringar í viðbót þar til tekst að losa skipið af strandstað. Sum flutningafyrirtæki hafa þegar ákveðið að sigla skipum sínum suður af Afríku, en slík leið tekur alla jafna viku lengri tíma en ef farið er um Súesskurð.

Skipið sem strandaði var á leið til Rotterdam í Hollandi og var að koma frá Kína þegar skipstjórinn missti stjórn á skipinu í skurðinum miðjum með þeim afleiðingum að það strandaði.


Tengdar fréttir

Öngþveiti í Súes-skurði

Súes-skurðurinn í Egyptalandi er nú lokaður fyrir skipaumferð, eftir að stórt flutningaskip strandaði í skurðinum í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×