Síþreyta, mæði og heilaþoka er á meðal þeirra einkenna sem konur á miðjum aldri voru líklegri til þess að upplifa í fleiri mánuði eftir að þær útskrifuðust af sjúkrahúsi eftir Covid-19 en aðrir, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar af rannsóknunum.
Hvítar miðaldra konur með aðra sjúkdóma eins og sykursýki, hjarta- eða lungnasjúkdóma voru líklegri til þess að þjást af langvarandi einkennum Covid-19 fimm mánuðum eftir útskrift af sjúkrahúsi. Í mestum áhættuhópi voru konur á bilinu fjörutíu til sextíu ára sem glímdu við tvo undirliggjandi sjúkdóma aðra.
Í annarri rannsókninni virtust konur yngri en fimmtugar líklegri til að þjást af langvarandi einkennum Covid-19 en karlar og eldra fólk jafnvel þó að þær væru hraustar að öðru leyti.
Rannsóknirnar tvær voru tiltölulega smáar í sniðum. Önnur þeirra náði til 327 sjúklinga en hin til 1.077 manns sem voru útskrifaðir af sjúkrahúsi eftir Covid-19-veikindi í Bretlandi í fyrra.
Meirihluti sjúklinganna sagðist finna fyrir nokkrum og viðvarandi einkennum fimm mánuðum eftir útskrift. Algengt var að þeir þjáðust af vöðva- og liðverkjum, síþreytu, slappleika, mæði og heilaþoku.
Um fjórðungur sjúklinganna í annarri rannsókninni þjáðist af kvíða og þunglyndi fimm mánuðum eftir úrskrift og tólf prósent sýndu einkenni áfallastreituröskunar. Louise Wain, prófessor við Háskólann í Leicester, segir mögulegt að munur á ónæmiskerfi karla og kvenna skýri hvers vegna konur virðist í aukinni hættu á langvarandi veikindum af völdum Covid-19.