Enski boltinn

Beckham: Solskjær er að skila ótrúlegu starfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 David Beckham og Ole Gunnar Solskjær náðu vel saman hjá Manchester United og unnu marga titla saman.
 David Beckham og Ole Gunnar Solskjær náðu vel saman hjá Manchester United og unnu marga titla saman. Getty/Alex Livesey

David Beckham er mjög ánægður með sinn gamla liðsfélaga Ole Gunnar Solskjær í knattspyrnustjórahlutverkinu hjá Manchester United.

David Beckham var spurður út í sitt gamla félag í nýju viðtali þar sem hann var þó aðallega mættur sem einn af eigendum bandaríska MLS-liðsins Inter Miami.

David Beckham og Ole Gunnar Solskjær unnu fimm Englandsmeistaratitla saman hjá Manchester United frá 1996 til 2003 og auðvitað þrennuna 1998-98.

Manchester United er nú í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og gæti endaði meðal þriggja efstu liðanna annað árið í röð en það væri í fyrsta sinn síðan að Sir Alex Ferguson hætti sem stjóri liðsins árið 2013.

Solskjær hefur verið gagnrýndur á tímabilinu, fyrst þegar liðið datt út úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar og aftur þegar liðið gaf eftir í framhaldinu á því að komast á topp ensku deildarinnar. Nú síðast tapaði Manchester United í átta liða úrslitum enska bikarsins.

„Ég hef séð þessa gagnrýni en það er bara þannig að þegar þú ert knattspyrnustjóri Manchester United, hjá liði sem hefur náð svo miklum árangri í gegnum tíðina, þá sleppur þú aldrei við gagnrýni hvort sem þú ert leikmaður, eigandinn eða knattspyrnustjórinn,“ sagði David Beckham í viðtali við ESPN.

„Ole hefur verið það lengi í þessu að hann ætti að geta tekið þessari gagnrýni. Hann er mjög rólegur og yfirvegaður og það eru engin læti í honum. Hann heldur áfram sínu starfi og mér finnst hann hafa skilað ótrúlegu starfi hjá United,“ sagði Beckham.

„Úrslitin eru farin að sýna það. Vonandi heldur þetta áfram þannig því stuðningsmennirnir elska Ole, við elskum öll Ole og við viljum að honum gangi vel. Svo þegar gagnrýnin kemur þá er hann maður sem getur tekið henni,“ sagði Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×