Erlent

Fimm­tán lík hafa fundist eftir elds­voðann í flótta­manna­búðunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hluti Balukhali-flóttamannabúðanna í Cox-basar brann til kaldra kola í gær. Flóttamenn reyndu að finna eigur sínar sem gætu hafa komist óskaddaðar úr eldinum í dag.
Hluti Balukhali-flóttamannabúðanna í Cox-basar brann til kaldra kola í gær. Flóttamenn reyndu að finna eigur sínar sem gætu hafa komist óskaddaðar úr eldinum í dag. AP/Shafiqur Rahman

Björgunarfólk hefur fundið að minnsta kosti fimmtán lík í brunarústum flóttamannabúða róhingja í sunnanverðu Bangladess. Þúsundir tjalda brunnu í eldsvoða sem kviknaði í búðunum í gær og fleiri en fjögur hundruð manns er enn saknað.

Að minnsta kosti þrjú þeirra látnu eru börn, að sögn yfirvalda í þeim hluta borgarinnar Cox-basars í Bangaldess sem Balukhali-flóttamannabúðirnar tilheyra. Louise Donovan, talskona flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að auk þeirra látnu hafi um 560 manns slasast í eldinum. Um 45.000 manns eiga nú ekki í önnur hús að venda vegna brunans.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að bruninn hafi áhrif á hátt í 88.000 manns. Margir hafi leitað skjóls í öðrum flóttamannabúðum, í tjöldum vina, í skýlum þar sem börnum er kennt eða í tímabundnum gistirýmum. Alþjóða Rauði krossinn segir að allt að 123.000 flóttamenn hafa orðið fyrir áhrifum af eldsvoðanum. AP-fréttastofan segir ekki ljóst hvað skýri svo mikinn mun á áætluðum fjöldanum.

Fleiri en milljón róhingjar hafast við í þéttsetnum flóttamannabúðum í Bangladess. Mikill meirihluti þeirra flúði ofsóknir herforingjastjórnarinnar í nágrannaríkinu Búrma árið 2017.


Tengdar fréttir

Mikill eldsvoði í flóttamannabúðum róhingja

Þúsundir róhingja eiga nú engan stað til að halla höfði sínu vegna mikil eldsvoða sem blossaði upp í flóttamannabúðum þeirraí sunnanverðu Bangladess í dag. Hundruð tjalda hafa orðið eldinum að bráð og er óttast að fólk hafi farist.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.