Fótbolti

Rakel ólétt og enn kvarnast úr meistaraliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Rakel Hönnudóttir skoraði fimm mörk í Pepsi Max-deildinni í fyrra og hefur alls skorað 125 mörk í 215 leikjum í efstu deild á Íslandi.
Rakel Hönnudóttir skoraði fimm mörk í Pepsi Max-deildinni í fyrra og hefur alls skorað 125 mörk í 215 leikjum í efstu deild á Íslandi. vísir/Hulda og @rakelhonnu

Rakel Hönnudóttir, meðlimur í hundrað landsleikja klúbbnum, verður ekki með Breiðabliki á komandi knattspyrnuleiktíð þar sem hún á von á sínu fyrsta barni.

Rakel, sem er 32 ára gömul, greindi frá barnaláninu á samfélagsmiðlum.

Rakel sneri heim úr atvinnumennsku fyrir síðasta tímabil og skoraði fimm mörk í tólf deildarleikjum með Breiðabliki í fyrra. Samningur hennar við Breiðablik er til loka þessa árs.

Rakel á að baki 103 A-landsleiki. Hún tilkynnti hins vegar í byrjun desember, eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM sem fram fer sumarið 2022, að landsliðsskórnir væru komnir á hilluna.

Breiðablik hefur misst stóran hóp landsliðskvenna í vetur, eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í fyrra. Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru allar farnar í atvinnumennsku, sem og Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem lék fyrri hluta síðustu leiktíðar.

Markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir er hætt, og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir verður að láni hjá Le Havre í Frakklandi fram að upphafi Íslandsmótsins. Breiðablik fékk Andreu Mist Pálsdóttur að láni frá FH í janúar en hún gerði svo tveggja ára samning við sænska félagið Växjö.

Þá urðu þjálfaraskipti hjá Breiðabliki þegar Þorsteinn Halldórsson tók við landsliðinu en Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við af honum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×