Erlent

Breska af­brigðið auki líkur á inn­lögn

Sylvía Hall skrifar
Sjötíu prósent nýrra smita í Noregi í byrjun mars reyndust vera breska afbrigðið.
Sjötíu prósent nýrra smita í Noregi í byrjun mars reyndust vera breska afbrigðið. Getty

Ný norsk rannsókn sýnir að fólk er 2,6 sinnum líklegra til þess að þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda ef það smitast af breska afbrigðinu samanborið við upprunalega afbrigðið. Breska afbrigðið hefur verið í mikilli útbreiðslu í Noregi.

Lýðheilsustofnun Noregs vann að rannsókninni og voru niðurstöður hennar kynntar í dag. Line Vold, yfirmaður hjá stofnuninni, segir hættuna á sjúkrahúsinnlögn aukast í öllum aldurshópum ef um breska afbrigðið er að ræða. 

Þá geti afbrigðið einnig valdið alvarlegum veikindum hjá ungu fólki og fólki undir fjörutíu ára aldri, sem er sá aldurshópur sem hingað til hefur sloppið hvað best við alvarleg einkenni.

Sjötíu prósent nýrra smita í Noregi í byrjun mars reyndust vera breska afbrigðið en faraldurinn hefur verið í töluverðum vexti þar í landi undanfarið. Á síðustu tveimur vikum hafa um tólf þúsund manns greinst með veiruna og mátti merkja mikla fjölgun í byrjun mánaðar.

165 voru lagðir inn á sjúkrahús í Noregi vegna kórónuveirunnar í annarri viku þessa mánaðar og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan í mars á síðasta ári.

„Það er alvarlegt að þetta nýja og meira smitandi afbrigði virðist einnig auka líkurnar á sjúkrahúsinnlögn. Við höfum áhyggjur af útbreiðslunni með tilkomu þessa afbrigðis,“ sagði Vold um rannsóknina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.