Innlent

Brutu upp dyr snemma morguns í miðbæ Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á annan tug manna hafa stöðu sakbornings í málinu sem hefur verið í rannsókn í tæpar fimm vikur. Morðvopnið er ófundið.
Á annan tug manna hafa stöðu sakbornings í málinu sem hefur verið í rannsókn í tæpar fimm vikur. Morðvopnið er ófundið. Vísir/Vilhelm

Sérsveit ríkislögreglustjóra braut upp útidyr í fjölbýlishúsi í miðbæ Reykjavíkur í gærmorgun. Um var að ræða hluta af aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsóknina í Rauðagerðismálinu.

Fjórir voru handteknir í aðgerðunum og fór húsleit fram á sex stöðum.

Þeir fjórir sem voru handteknir eru tengdir sakborningum í málinu sem voru tólf talsins fyrir handtökurnar í gær. Samkvæmt heimildum fréttastofu brutu lögreglumenn upp útidyrahurðina á fjölbýlishúsinu áður en farið var á hæðina þar sem karlmaður býr með konu sinni og börnum. Þar var sömuleiðis hurðin brotin upp og karlmaðurinn handtekinn.

Allir fjórir sem handteknir voru í gær voru látnir lausir að loknum yfirheyrslum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Einn karlmaður var úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald á miðvikudag vegna málsins, annar í vikulangt varðhald auk þess sem gæsluvarðhald yfir þriðja aðila rennur út í næstu viku. Þá sæta fleiri farbanni.

Fram kom í úrskurði í málinu sem birtur var á Landsrétti í gær að hinn myrti, Armando Bequiri, hefði verið skotinn níu sinnum þann 13. febúar fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði þar sem hann bjó með konu sinni og barni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×