Erlent

Erna Sol­berg braut sótt­varna­reglur í ferð með fjölskyldunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Erna Solberg birti þessa mynd af sér og eiginmanni sínum Sindre Finnes í Geilo helgina sem fjölskyldan fagnaði sextugsafmæli hennar. 
Erna Solberg birti þessa mynd af sér og eiginmanni sínum Sindre Finnes í Geilo helgina sem fjölskyldan fagnaði sextugsafmæli hennar.  Skjáskot/Instagram

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, braut sóttvarnareglur í febrúar þegar hún borðaði kvöldverð með þrettán öðrum. Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK en brotið átti sér stað á meðan Solberg var í fríi í skíðabænum Geilo þar sem hún hélt upp á sextugsafmæli sitt. Þar var hún stödd ásamt fjölskyldu, tveimur systrum sínum og fjölskyldum þeirra.

„Ég sem stend á hverjum einasta degi og upplýsi norsku þjóðina um sóttvarnaráðstafanir og átti að hafa þekkt reglurnar betur. En sannleikurinn er sá að ég hafði ekki skoðað reglurnar nógu vel og hafði því ekki áttað mig á þessu,“ sagði hún í samtali við NRK.

Á þeim tíma máttu ekki fleiri en tíu koma saman í Noregi en þrettán manna fjölskylda forsætisráðherrans snæddi saman á veitingastað þann 25. febrúar til að fagna stórafmælinu. Solberg ætlaði að vera viðstödd kvöldverðinn en þurfti skyndilega að yfirgefa bæinn til að fara til augnlæknis.

Eftir að NRK spurðist fyrir um málið upplýsti Solberg að fjölskyldurnar hafi aftur snætt saman daginn eftir í leiguíbúð og að í þetta sinn hafi hún verið hluti af fjórtán manna hópnum.

„Það er fjórum ofaukið. Við hefðum ekki átt að gera þetta og ég hefði átt að stöðva þetta. Ég gerði það ekki og get einungis beðist afsökunar,“ sagði forsætisráðherrann sem fullyrðir líkt og áður segir að hún hafi ekki gert sér grein fyrir brotinu. Ekki er vitað til þess að neinn hafi smitast af Covid-19 í umræddri ferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×