Erlent

58 látnir eftir árás víga­manna í Níger

Atli Ísleifsson skrifar
Ríkisstjórn Níger hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna árásarinnar. Myndin er úr safni.
Ríkisstjórn Níger hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna árásarinnar. Myndin er úr safni. EPA

Tugir óbreyttra borgara eru látnir eftir árás hóps vígamanna í Níger síðdegis á mánudag. Talsmaður nígerskra stjórnvalda segir að vígamennirnir hafi verið á bifhjólum og ráðist á fólkið þar sem það var á leið heim af markaði í Banibangou, nærri landamærunum að Malí.

58 manns hið minnsta létu lífið í árásinni, en fólkið var á leið heim til þorpanna Chinedogar og Darey-Daye þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. Auk þess að stráfella fólkið brenndu árásarmennirnir nokkur farartæki og nálægar korngeymslur.

AFP hefur eftir sjónarvottum að árásarmennirnir hafi fyrst ráðist á fólk í rútu þar sem um tuttugu manns voru skotnir til bana. Þá var mikill fjöldi sömuleiðis drepinn á markaðnum í Banibangou.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni, en síðustu ár hafa íslamskir vígahópar verið skæðir í þessum heimshluta.

Ríkisstjórn Níger hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna árásarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×